138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

heillaóskir til litháísku þjóðarinnar.

431. mál
[16:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ítreka það sem kom fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir þessari tillögu frá utanríkismálanefnd, ég tel mikilvægt að við sýnum vinarhug í verki með því að samþykkja þessa ályktun, bæði vegna þess að litháíska þjóðin barðist fyrir sjálfstæði sínu þegar hún braust undan oki ofstjórnar og þess að Íslendingar tóku virkan þátt í sjálfstæðisbaráttu Litháa með tilteknum hætti. Ég tek hins vegar einnig undir þau orð sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir viðhafði hér. Það er mikilvægt fyrir okkur, hvar sem við Íslendingar komum því við, að tala máli mannréttinda og lýðræðis, líka hjá vinum okkar. Það er mjög mikilvægt að þau sjónarmið komist á framfæri og ég lýsi stuðningi við það, en ég vil fyrst og fremst þakka samnefndarmönnum mínum í utanríkismálanefnd fyrir meðflutninginn á þessari tillögu og þakka þingmönnum fyrir þann stuðning sem þeir sýna í verki við þá tillögu að óska litháísku þjóðinni allra heilla.