138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:08]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar. Í fyrsta lagi á þetta frumvarp að sjálfsögðu, rétt eins og öll önnur frumvörp, að fá hér þinglega meðferð. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar í sjálfu sér að spyrja ráðherra um svo augljóst mál, en ég velti kannski frekar fyrir mér hvernig tilfinning það verður til lengri framtíðar að hafa sagt nei við náttúruverndaráætlun. Ég held að það séu kannski dapurlegri fingraför í sögu einstakra þingmanna hér en annað sem ég hef séð að því er varðar umhverfis- og náttúruverndarmál á þessu þingi.

Þingmaðurinn nefnir tímafresti og það er rétt að hér er ekki gert ráð fyrir því að greina sérstaklega hvaða tímafrestir eiga að vera, enda er í raun og veru um staðfestingu reglugerðar að ræða þar sem aðalskipulag hefur reglugerðargildi og lýtur sömu lögmálum að því er varðar það að ráðherra staðfestir eða synjar staðfestingar reglugerðar, væntanlega eftir að fullnægjandi gögn liggja fyrir í málinu. Ég held að við gætum svo sem eytt tíma í að ræða hér þau mál sem þingmaðurinn er augljóslega að vísa til að því er varðar skipulag bæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Flóahrepps og hefur raunar verið skýrt hér mjög vel.

Hraðar hendur verður maður að hafa, jú, en hv. þingmanni til upplýsingar skiptir líka máli að þeir sem fara með opinbert vald, og sérstaklega sé það endanlegt, þurfa að ígrunda það vel.