138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum nýtt frumvarp til skipulagslaga sem hæstv. umhverfisráðherra fór nokkuð geyst yfir og gerði býsna vel, fór yfir meginatriði frumvarpsins. Það er svo sem ekki alveg hægt að segja að þetta sé óvænt frumvarp þar sem ég held að unnið hafi verið að því í tíu ár, a.m.k. átta. Ég held að þetta sé í þriðja eða fjórða sinn sem það er lagt fram án þess að það hljóti staðfestingu þingsins. Engu að síður verður maður auðvitað að spyrja sig af hverju þetta dúkki upp með svona stuttum fyrirvara. Þetta eru einar 59 blaðsíður sem við þingmenn fengum til að renna hér yfir áður en það var lagt fram í þinginu. Mannvirkjafrumvarpið sem á að kynna hér á eftir er 79 síður þannig að ég var glaður yfir þessum þó sérkennilegu umræðum áðan, frú forseti, um þingsköp og annað því að þá gat ég notað tíminn til að renna aðeins yfir þetta frumvarp. Það eru sannarlega breytingar í því. Sumar þeirra eru kannski ekki óvæntar, maður hefur haft grun um að þær væru á leiðinni inn, breytingar sem ekki eru allar heppilegar.

Þó vil ég segja hæstv. ráðherra til hróss að hér hefur verið tekið tillit til nokkurra þeirra umsagna og tillagna sem sveitarfélög landsins hafa haft uppi á síðustu árum og ekki var hlustað á þá, til að mynda um landsskipulagsstefnuna sem þá hét áætlun. Með orðavalinu þá var greinilega markvisst vísað til þess að það væri æðra aðalskipulagi, tæki tillit til þess að sveitarfélögin yrðu að fara eftir því landsskipulagi og ráðherra hefði þar með orðið alræðisvald yfir skipulagsvaldi sveitarfélaga. Ég verð þó að segja hér að þó að búið sé að breyta orðinu áætlun í stefnu og laga að nokkru leyti orðavalið, bæði í sjálfu frumvarpinu og eins í greinargerðinni, er ég efins um að það sé hinn raunverulegi vilji hæstv. ráðherra í ljósi úrskurða hæstv. ráðherra á síðustu vikum þar sem í ljós hefur komið hinn pólitíski ásetningur. Maður veltir fyrir sér hvort frumvarpið sé nægilega tryggt svo geðþóttaákvarðanir einhvers ráðherra, ekki endilega hæstv. núverandi ráðherra, verði ekki alls ráðandi í þessu landsskipulagi og með hvaða hætti samráðið verði.

Þetta verður óhjákvæmilega þannig við 1. umr. þar sem undirbúningstími var takmarkaður að maður veður svolítið fram og til baka. Ég vil líka varpa því hér fram til mikillar umhugsunar, í ljósi þess að þetta er að stofni til sama frumvarpið og var unnið 2002 og á grundvelli þeirra upplýsinga sem menn höfðu sankað að sér, m.a. á Norðurlöndunum, að ýmislegt hefur breyst síðustu tíu árin og við höfum lært ýmislegt. Fulltrúar dreifbýlis, sveitarfélaga — og ég hef verið í forsvari fyrir slíkt sveitarfélag — og skipulagsapparöt slíkra sveitarfélaga hafa gagnrýnt harðlega að bæði núverandi lög, sem og núverandi frumvörp, hvort sem þau voru þáverandi eða þessi nýjustu, hafa ekki tekið nægilegt tillit til dreifbýlissjónarmiða.

Því sló það mig nokkuð að sjá fyrst og fremst aðila af höfuðborgarsvæðinu á umsagnalistanum fyrir síðasta frumvarp, frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Og hæstv. umhverfisráðherra upplýsti hér áðan að leitað hefði verið samráðs við Reykjavíkurborg en ekki t.d. sérstaklega við dreifbýlissveitarfélög landsins. Ég óttast að enn og aftur bregðumst við ekki við ýmsum þeim ágöllum sem við höfum verið að tala um á liðnum árum.

Mig undrar nokkuð að frumvarpið skuli koma hér inn með þessum hraða og að meiningin sé væntanlega að klára það á vorþinginu. Af hverju var það ekki lagt fram fyrr í haust ef þetta er að stofni til nánast það sama? Eins mætti velta fyrir sér, úr því að það er búið að taka þetta langan tíma, af hverju við förum ekki í heildarendurskoðun miðað við núverandi stöðu sem við höfum lært. Það hefur margt breyst. Til að mynda er ekki tekið nægilegt tillit til dreifbýlisins og við höfum upplifað það sem búum í dreifbýlissamfélögum. Jarðaskrá, fasteignaskrá og þinglýsing sýslumanna þurfa að vera miklu samþættari skipulagsáætlun sveitarfélaganna og skipulagsþættinum, bara upp á skráningu, þetta er tæknilegt atriði en það þarf að hugsa til þessara hluta. Það er ekki nægilega gert í dag og maður spyr sig af hverju menn hafi ekki farið í þá vinnu. Það er greinilegt að það hefur verið farið í svolitla greinargerðavinnu við að samrýma landsstefnuna, sem hún heitir þá orðið núna aftur en ekki landsáætlun, þeirri hugmyndafræði sem er á Norðurlöndunum. Eins og ég segi get ég ekki að því gert að ég er kannski ekki alveg viss um að það sé nóg að breyta einhverju orðalagi. Markmið ráðherra á hverjum tíma er kannski einfaldlega það að komast yfir skipulagsvald sveitarfélaga. Ég hef setið fundi með hæstv. umhverfisráðherra, ekki núverandi heldur öðrum, þar sem sú yfirlýsing var hreinlega gefin þegar að var spurt að meiningin væri að fá ráðherra það vald í hendur að geta m.a. stöðvað virkjanaframkvæmdir eða aðrar uppbyggingaráætlanir sveitarfélaga á landsbyggðinni. Það gerði það auðvitað að verkum að menn höfðu ekki sérstakan áhuga á að fá það vald yfir sig. Ég er ekki viss um að það dugi sem hér er búið að gera.

Annar liður sem hér hefur verið nefndur og ég hygg að sé kannski ástæða þess að skipulagslögin detti svo snarlega hér inn er að á grundvelli 34. gr. núverandi skipulagslaga, ef ég man rétt, synjaði núverandi hæstv. umhverfisráðherra aðalskipulögum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með vísan til þess að sveitarfélögin hefðu ekki haft heimild til að láta framkvæmdaraðila borga hluta af kostnaði við skipulagsvinnu.

Ég hafði hugsað mér að leggja fram tvær breytingar við núverandi lög en mun án efa gera það við núverandi frumvarp og boða þær hér með. Önnur snýr að þessari grein sem er núverandi 34. gr. Ég hafði hugsað mér að bæta þar við 7. lið sem yrði þá, ef ég man rétt, 18. gr. frumvarpsins, um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu. Ég hafði hugsað mér að bæta lið við þá grein, liðurinn er kannski ekki alveg fullunninn en það er búið að fjalla hér um úr hvaða sjóðum eigi að greiða og hver eigi að greiða hvað, og á eftir 6. liðnum kæmi þá eftirfarandi 7. liður:

Sé nauðsynlegt að vinna skipulagsáætlun eða gera breytingu á henni vegna leyfisskyldra framkvæmda getur sveitarstjórn innheimt gjald vegna skipulagsvinnu sem nauðsynleg er vegna þeirrar framkvæmdar. Gjaldið skal ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við skipulagsgerðina og kynningu og auglýsingu skipulagsáætlunar.

Ástæðan fyrir þeirri hugmynd minni að leggja þetta fram er sú að í sveitarfélögum víðast hvar á landinu, hugsanlega ekki Reykjavíkurborg vegna þess að hún á allt land, átti a.m.k. allt land sem hún var með eða hún hefur burði til að kaupa það upp á mjög háu verði eins og á Laugaveginum, skipulögðu menn mjög gjarnan á einkalandi, þ.e. á landi annars aðila, að frumkvæði viðkomandi eða einhvers annars athafnamanns. Sveitarfélagið á ekki að þurfa að leggja út í þennan kostnað. Sveitarfélög landsins biðu eftir þessari gjaldtökuheimild, eftir akkúrat þessari heimild erum við búin að bíða allan þennan tíma. Á meðan við þurftum að verjast því að landsáætlunin tæki við biðu sveitarfélögin eftir þessu. Tveir póstar tókust dálítið á, þeir vildu gjarnan fá nákvæmlega þetta ákvæði inn í þetta núverandi frumvarp sem síðan er búið að fella út úr frumvarpinu sem er búið að vera allan tímann. Það er búið að fella það út, væntanlega til þess að setja eitt púsl í spil núverandi hæstv. umhverfisráðherra svo úrskurður um að synja aðalskipulögum Flóa- og Skeiða- og Gnúpverjahrepps sé trúverðugri.

Önnur grein sem ég hefði mikinn áhuga á að koma með tillögu að breytingu á kom reyndar fram í fyrirspurn hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og sneri að þeim tímafrestum sem ráðherra hefur til að staðfesta eða synja aðalskipulögum. Mér finnst það mjög nauðsynlegt og saknaði þess í yfirferð ráðherra. Eins og ég segi er ég náttúrlega ekki búinn að renna oft yfir þetta, bara lesa á hundavaði, en mér sýndist ég sjá að það væri nýmæli að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fengi nú sex mánuði til að ljúka sínum málum. Það er frábært af því að þar inni hafa mál legið í tvö eða þrjú ár, allt í uppnámi og enginn veit hvernig því á að ljúka.

Á sama hátt get ég ekki skilið af hverju ekki er sett í þetta frumvarp ákvæði þar sem tími ráðherra er takmarkaður með sama hætti, að hann sé til að mynda hámark sex mánuðir, sem er vel fyllilega og meira en nóg. Í þeim málum, sem maður hefur rætt við mjög marga framkvæmdaraðila, sveitarstjórnarmenn og aðra sem maður ræðir skipulagsmál við, hefur það oft komið upp hversu langan tíma það tekur að fara með aðalskipulag í gegn. Ef stystu frestirnir eru lagðir saman og maður ímyndar sér að þetta gangi sem hraðast tekur það ekkert óskaplega langan tíma, kannski hálft til eitt ár, það er reynslan — að því gefnu að málið komist í gegnum ráðuneytið á eðlilegum tíma. Ef það hins vegar dvelur í ráðuneytinu, hugsanlega vegna anna þeirra starfsmanna sem þar vinna en hugsanlega vegna geðþótta ráðherra á hverjum tíma, getur þess vegna tekið tvö ár að fá eitthvert aðalskipulag í gegn, eða aðalskipulagsbreytingu. Þetta gengur auðvitað ekki og það sjá allir. Þess vegna verður að setja slíka grein þarna inn og ég hyggst leggja jafnframt fram breytingu við gjaldtökuheimildina.

Það er reyndar annar jákvæður þáttur sem ég ætla líka að nefna hérna, það er einmitt í því sambandi að aðalskipulagsbreytingar þurfi ekki að fara til staðfestingar ráðherra, það sé nóg að þær fari til staðfestingar Skipulagsstofnunar. Það finnst mér verulegur plús og ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að það hafi verið í fyrri frumvörpum líka. Það er mjög nauðsynlegur þáttur. Um getur verið að ræða afar litla aðalskipulagsbreytingu sem snertir takmarkaða framkvæmd en það er þó matskennt. Ef þær eru miklar, ef þær snerta mikla framkvæmd getur Skipulagsstofnun hugsanlega hafnað því án þess að ráðherra — já, þá er gert ráð fyrir staðfestingu umhverfisráðherra í ákveðnum tilvikum svo ég fari nú rétt með.

Þetta frumvarp er á margan hátt barn síns tíma. Það er margt jákvætt í því. Landsmenn allir og sveitarfélögin eru búin að bíða eftir þessu í langan tíma. Maður veltir samt fyrir sér úr því að það er búið að bíða svona lengi hvort ekki hefði verið nær að vinna það aðeins betur og þá á grundvelli nýjustu upplýsinganna, þróunarinnar sem við upplifðum í þenslunni 2006–2007 og svo aftur núna í hruninu. Við þurfum að draga lærdóm af þessu og það er ekki hægt að leggja frumvarpið fram óbreytt fyrir utan þessi kannski tvö meginákvæði sem snerta annars vegar landsskipulagið og svo hins vegar að kippa þessari gjaldtöku út.

Það var búið að vinna ansi mikla vinnu út af landsskipulagsáætluninni. Ég sé alveg að við horfum auðvitað til Norðurlandanna. Það er margt þar sem hefur verið vel gert og við eigum að reyna að læra af reynslu þeirra, en eins og kom fram í greinargerð frá lögfræðisviði Sambands íslenskra sveitarfélaga um landsskipulög, og ég býst við að hæstv. ráðherra hafi m.a. verið að vísa til að hún hafi átt ágætissamráð og -samvinnu við, eiga þessar landsskipulagsáætlanir að þjóna sem vegvísar fyrir skipulagsgerð á svæða- eða sveitarfélagastigi, ætlunin eigi ekki að vera sú að stýra skipulagsgerð þeirra í smáatriðum og stefna þeirra sé ekki bindandi fyrir svæðis- og sveitarstjórnir. Þá velti ég því bara upp hvernig við getum tryggt að svo sé. Ég held að við eigum talsvert eftir af umræðu um þetta mál og kannski mun meiri en við komumst yfir í dag. Ég sé a.m.k. að ég er búinn með minn tíma en lýsi því yfir að ég hef ekki sagt mitt síðasta orð í þessu máli.