138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að mestu leyti þó nokkuð töluvert málefnalega ræðu um þetta mál, en ég bið hann bara þess lengstra orða að draga úr tortryggni sinni og dylgjuundirtón sem dúkkaði upp einstöku sinnum. Þetta mál er bara ekki þannig. Það á alveg örugglega mjög oft við að skella sér í hefðbundnar stjórnarandstöðuskotgrafir, en sannarlega ekki í þessu þarfa máli sem er endurskoðun á lagaumhverfi skipulags- og byggingarmála á Íslandi. Það að þetta hafi dottið inn með stuttum fyrirvara er einfaldlega ekki rétt því að þetta hefur verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar bæði fyrir og eftir áramót og ætti ekki að koma neinum á óvart.

Þingmaðurinn óttast að ekki séu uppfyllt sjónarmið litlu sveitarfélaganna. Ég vil fullvissa hann um að ef það er einhver sem getur staðið vörð um sjónarmið litlu sveitarfélaganna er það hið ágæta Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er til þess bær aðili og umhverfisráðuneytið hefur átt í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þannig að athugasemdir um samráðið og orðalag textans sem kemur fram í máli þingmannsins ættu þá væntanlega erindi í gegnum sveitarstjórnarmenn og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það samráð hefur verið haft með það fyrir augum að þau sjónarmið ættu greiða leið, bæði inn í orðalag og efnisatriði þeirra lagagreina sem hér hafa verið til umræðu.

Þingmaðurinn drepur líka á nokkrum atriðum sem varða greiðslu kostnaðar við skipulagsvinnu og ýmislegt því um líkt. Það er gríðarlega mikilvæg umræða. Það er sameiginlegt markmið þess ráðherra sem hér stendur og sveitarfélaganna að hér sé skorið úr um það að sveitarfélögin þurfi ekki að búa við það að hagsmuna- eða framkvæmdaraðilar standi straum af greiðslum (Forseti hringir.) þar sem um gæti verið að ræða þrýsting sem væri erfitt að standast. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir öll stjórnvöld sem að málinu koma að tryggja að svo sé ekki, (Forseti hringir.) og þessum greiðslum sé eðlilega og vel fyrir komið.