138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki bara að mestu verið málefnalegur heldur meira og minna mjög málefnalegur í umræðum hér. Það sem ég átti við að frumvarpið hefði dottið inn — auðvitað veit ég að þetta er á lista ríkisstjórnarinnar yfir það sem hér á að gerast, en það á kannski ekki endilega bara við þetta frumvarp, en þetta er umfangsmikið. Ég hefði talið eðlilegt, og það snertir kannski vinnubrögð þingsins, að mál séu lögð fram og menn hafi svo sem fjóra til fimm daga til að fara yfir þau áður en þau koma hér inn í umræðu, en ekki bara hálfan sólarhring eins og gjarnan er. Það var á þeim nótum sem ég var kannski að fjalla um þetta.

Varðandi greiðslu kostnaðarins þá er það alveg gríðarlega mikilvæg umræða. Ég hjó til að mynda eftir því og það er þannig í dag, og það er ekki gott, að sum sveitarfélög fá helming af skipulagsgjaldinu beint til sín, skipulagssjóðsgjaldinu, og hafa getað notað það. Á uppgangstímum eru þetta umtalsvert meiri peningar en sveitarfélögin fá til baka með því að sækja um til Skipulagsstofnunar til endurgreiðslu, mun meiri. Hver flokkar þessi sveitarfélög? Hver ákveður það? Menn hafa verið að reyna að berjast um að komast í þennan flokk. Það hefur nú verið þannig að það eru fyrst og fremst sveitarfélög hér á suðvesturhorninu sem hafa notið þessa en ekki önnur sveitarfélög jafnvel þó að það hafi verið mikill uppgangur þar. Og ekki bara lítil sveitarfélög, ég átti ekki endilega við það þegar ég sagði dreifbýlissveitarfélög því að dreifbýlissveitarfélög geta verið alveg feiknalega stór og með talsvert marga íbúa. Með vaxandi sameiningum, sem við skulum nú búast við að verði, er þetta vandamál eftir sem áður til staðar. Þetta hefur ekkert með íbúafjöldann eða stærð sveitarfélagsins að gera, þetta snertir dreifbýlisþáttinn. Það er það sem vantar hér inn í bæði þetta frumvarp og núverandi lög, ýmis atriði sem ég reyndi aðeins að tæpa á í ræðu minni.