138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ræðuna. Ég lýsi því hér með yfir að efnislega er ég sammála þeim tveimur breytingartillögum sem þingmaðurinn boðar, tel að þær yrðu mjög til bóta.

Hv. þingmaður gerði að umtalsefni það atriði að Skipulagsstofnun er falin fullnaðarafgreiðsla ákveðinna mála. Það vekur athygli að mér skilst að í fyrra frumvarpi hafi Skipulagsstofnun verið falið að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra. Miðað við rökstuðninginn, sem er í greinargerðinni með frumvarpinu, hefur einhvern veginn skolast til að taka hann út, en rökstuðningurinn felst í því, með leyfi forseta:

„Þessari breytingu er ætlað að einfalda stjórnsýslu þessara mála þannig að eitt stjórnvald komi að staðfestingu skipulagstillagna í stað tveggja áður og mun það auka skilvirkni við afgreiðslu mála. Skipulagsstofnun mun hafa sama hlutverk og ráðherra varðandi yfirferð skipulagstillagna og m.a. gæta þess að þær séu í samræmi við lög, svo sem samþykktir landsskipulagsstefnu.“

Það er spurning mín til hv. þingmanns hvort hann telji það til bóta að Skipulagsstofnun hafi þetta hlutverk og með því mundum við vonandi ná út þeirri áhættu sem felst í því að pólitísk afskipti ráðherra, pólitískar skoðanir ráðherra, t.d. á einstaka virkjunarkostum, fari að blandast í það hvernig aðalskipulög eru afgreidd.

Það eru sveitarfélögin sem fara með skipulagsvaldið í landinu og það er spurning hvort hv. þingmaður mundi standa að slíkri breytingartillögu.