138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[18:24]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að frumvarp til skipulagslaga og önnur frumvörp sem hér liggja fyrir og verður vísað til hæstv. umhverfisnefndar, eru fram komin. Ég fagna því að endurskoðun er nú lokið að sinni og vona að umhverfisnefnd lánist að ljúka afgreiðslu frumvarpanna og þau verði að lögum fyrir vorið eða á þessu þingi. Ég tel að undirbúningurinn sé það vandaður og svo margir komið að honum að hægt sé að fara að taka á þessum málum og koma frumvörpunum í lagaform.

Hæstv. forseti. Ég tek til máls til að varpa fram spurningu til hæstv. umhverfisráðherra ef hæstv. ráðherra getur mögulega svarað, og hún varðar svæðisskipulög. Ég hef sagt það stundum svona í gríni að eina leiðin til að koma á almennilegu skipulagi á höfuðborgarsvæðinu væri að sameina hreppana á höfuðborgarsvæðinu því að þar er í gildi svæðisskipulag sem og á öðrum stöðum þar sem einstaka sveitarfélag fer svo bara fram úr eða fer ekki eftir svæðisskipulaginu. Þetta sýndi sig hvað best í þenslu undanfarinna ára þar sem hvert og eitt sveitarfélag þar sem þenslan stóð yfir tók alla íbúaþróun til sín og áætlaði uppbyggingu á sínu svæði, í sínu sveitarfélagi, sem hefði átt að duga fyrir svæðið í heild. Ég sé ekki í frumvarpinu, og það er kannski vegna þess að ég hef ekki þaullesið það og er að koma að þessum málum núna, hvernig á að taka á því ef ekki er farið að svæðisskipulagsáætlunum, hvernig á að bregðast við. Landsskipulagið tekur til áætlana um samgöngur og byggðamál, náttúruvernd og orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun eins og hér kemur fram. Hafi einhvern tímann verið þörf á landsskipulagi tel ég að það sé núna við aðstæður þar sem tekist er á um stór mál sem koma inn á aðra löggjöf eins og áætlun um rammaáætlun og náttúruvernd og fleiri þætti þar sem tekist er á um nýtingu lands, takmarkaða auðlind.

Ég sé ekki, hæstv. forseti, hvernig á að taka á þessu hvað varðar svæðisskipulögin, þannig að við lendum ekki í sömu ógöngum aftur og við stöndum uppi með eftir þenslu undanfarinna ára.