138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[18:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir afar málefnalega og góða umræðu. Sannast það hér eina ferðina enn hversu mikið ríkidæmi það er að hafa innan borðs marga þingmenn sem hafa reynslu af sveitarstjórnarmálum, því að eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson komst að orði er það stjórnvald fólksins. Ég vil meina að við getum gengið svo langt að tala um það líka hérna megin við Vonarstrætið ef svo má að orði komst, þ.e. að við á hinu háa Alþingi, ég tala nú ekki um í ráðuneytunum, fjarlægjumst ekki almenning í þessum efnum frekar en öðrum.

Það eru þó nokkur atriði sem mig langar til að bregðast við í lokayfirferðinni en þetta er náttúrlega bara 1. umr. um málið. Ég sé að hv. formaður umhverfisnefndar skrifar niður mikið af þeirri speki sem hefur hrotið af munni mismunandi þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi til að nýta þær góðu og uppbyggilegu athugasemdir sem hér hafa komið fram. Er það hið besta mál.

Mig langar aðeins að nefna kannski prinsippin í því sem hér er á ferðinni. Það sem um er að ræða, eins og hér hefur reyndar komið fram í umræðunni, er að land er takmörkuð auðlind sem ber að umgangast með mikilli varfærni og með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Hvað þýðir það? Það þýðir að heildarhagsmunirnir þurfa alltaf að vera hafðir að leiðarljósi, bæði að því er varðar hagsmuni samfélagsins til langs tíma, hagsmuni náttúru og umhverfis til langs tíma og hagsmuni efnahags til langs tíma. Að samþætta öll þessi sjónarmið gerir kröfu um að báðar hliðar hins opinbera ef svo má að orði komast, þ.e. bæði hið staðbundna stjórnvald sem eru sveitarfélögin og líka viðkomandi stofnanir og ráðuneyti, hjálpist að við að tryggja að þessi sýn sé höfð að leiðarljósi. Stundum er það þannig að hagsmunir þeirra sem eru of nálægt í tíma og rúmi geta verið of skammsýnir og þá þurfum við að leita að samtali við þá sem eiga að gæta að stærri hagsmunum til lengri tíma. Stundum er það þannig að þá sem fara með ráðuneytisvaldið eða sitja í stofnununum skortir þekkingu, innsæi og menningarupplifun þeirra sem búa á staðnum. Þess vegna er það svo einfalt að skipulagsmál hljóta að vera sameiginlegt verkefni þessara tveggja hliða hins opinbera. Þegar allt kemur til alls er þetta svo einfalt. Það er sama hvort það eru sveitarfélög, þingmenn, ráðherrar eða aðrir sem eru kjörnir fulltrúar, við höfum öll sömu skyldur við almenning. Við höfum með opinbert vald að gera, við höfum með opinbert fé að gera og sameiginlegt skattfé almennings og okkur ber að fara með það með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Þannig er það. Og það hvort við gerum það sitjandi í hreppsnefnd eða sitjandi í ráðuneyti er í raun og veru bara tvær hliðar á nákvæmlega sama verkefni. Ég er mjög upptekin af þessari hlið málsins hafandi verið sveitarstjórnarmaður og sérstaklega hafandi verið í þeirri stöðu að upplifa sem töluverða glímu við ríkisvaldið akkúrat þetta, hver ætti að fara með endanlegt vald í málum. Ég held að það sé viðfangsefni fyrir okkur að tryggja að við sjáum þetta meira sem sameiginlegt verkefni frekar en að ríkið sé yfir sveitarfélögin sett eða sveitarfélögin yfir ríkinu í tilteknum efnum.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi sjónarmið þeirra sem þurfa að beygja sig undir skipulagsákvarðanir eða þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Það er gríðarlega mikilvægt að þeir eigi aðgang að verkefninu en það er mikilvægt að halda þeim utan seilingar meðan við erum að halda almannahagsmunum til haga vegna þess að hagsmunir þeirra sem fara með einhvers konar væntingar til framkvæmda eða uppbyggingar, hagsmunir þeirra sem eiga peninga og geta þrýst með þeim, geta valdið því að það verði ákveðið misræmi í því hvernig almannahagsmunum er fyrirkomið. Við þurfum að vera meðvituð um það, við þurfum að vera vakandi fyrir því. Hins vegar er það svo að bæði Samtök atvinnulífsins og aðrir aðilar koma auðvitað að þessari vinnu og eiga að gera það, en við þurfum að vera vakandi fyrir því hversu stóran sess það samráð á eða á ekki að skipa.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson talaði líka um í rauninni stórt prinsippmál sem er, eins og hann orðaði það, pólitísk afskipti ráðherra. Þetta er í raun og veru efni í langan fund vegna þess að nú er það svo að almenningur kýs sér löggjafarsamkomuna og löggjafarsamkoman kýs sér framkvæmdarvaldið og það er mikilvægt að hið pólitíska umboð sé ekki rofið á þessari leið. Það er mikilvægt að ráðherrar beri pólitíska ábyrgð gagnvart þinginu. Það er mikilvægt að ráðherra snúi sér ekki undan og segi: Stofnanir mínar ákváðu þetta. Það er mikilvægt fyrir þingið og það er mikilvægt fyrir lýðræðið að þessi pólitíska ábyrgð sé klár því að við getum ekki, burt séð frá allri fagmennsku og burt séð frá allri ítarlegri skoðun mála, útvistað framkvæmdarvaldinu til stofnana. Það getum við ekki gert, þá værum við farin að skrumskæla eða skekkja það sem er okkar skilningur á opinberu valdi og þá þurfum við að eiga um það endurskoðunarumræðu á því fyrirkomulagi sem er á stjórnskipan á Íslandi, sem kann að vera full ástæða til að gera og þá skulum við líka gefa okkur tíma í það.

Hv. þm. Þuríður Backman ræddi um svæðisskipulögin. Ég þekki það nokkuð vel hafandi setið í stjórn svæðisskipulags Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins. Ég þekki það afar vel að þar er til gríðarlega gott svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið en hefur ekki í raun og veru verið virkt og ekki verið nýtt sem skyldi, ekki eins og vinnan og metnaðurinn gefur tilefni til þegar sú vinna var lögð upp. Svæðisskipulag er náttúrlega gríðarlega mikilvægt tæki til þess að stýra byggðaþróun og til þess að samliggjandi sveitarfélög skipti með sér verkum, ef svo má segja, hvort sem það er uppbygging íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis, verslunar, samgangna eða annarra þátta. Við höfum því miður ekki borið gæfu til að gera þetta á höfuðborgarsvæðinu en nú er sett fram í frumvarpinu það nýmæli að skylt er að vinna svæðisskipulag vegna höfuðborgarsvæðisins. Það er í fyrsta skipti sem svo er að það er skylda. Þetta er lagt til vegna sérstöðu höfuðborgarsvæðisins sem samliggjandi þéttbýliskjarna og er ekki einungis heimild, heldur skylda. Vegna þessarar stöðu er mjög mikilvægt að í gildi sé svæðisskipulag, bæði á sviði samgangna og uppbyggingu atvinnuhverfa og íbúabyggða, til að tryggja yfirsýnina yfir byggðina og fyrirhugaða þróun hennar á svæðinu í heild.

Þessa þætti þarf auðvitað að ræða mjög vel í nefndinni og þá með hvaða hætti við sjáum þetta fyrir okkur. Það er líka ágætisáminning, þegar við erum alla jafna að ræða skipulag, sama hvort það er deiliskipulag, aðalskipulag, svæðisskipulag eða landsskipulag, erum við því miður oftar en ekki bara að ræða það í tvívíðu samhengi, þ.e. við erum bara að ræða ráðstöfun lands en ekki í raun og veru framtíðarsýn samfélags sem er það sem skipulag felur í sér. Það felur líka í sér framtíðarsýn að því er varðar atvinnuuppbyggingu, að því er varðar menningarheildir, að því er varðar byggðaþróun eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi réttilega áðan.

Ég er viss um að mér hefur yfirsést eitthvað af þeim góðu athugasemdum sem hér komu fram en ég treysti því að þær fái allar málefnalega meðferð í nefndinni, og sama hvort það er umræðan um landsskipulag, ég fullyrði það við þá ágætu þingmenn sem hér hafa fjallað um það sérstaklega að það skref sem við höfum stigið í meðferð frumvarpsins í ráðuneytinu núna hvað varðar sátt við sveitarfélögin er mjög mikilvægt. Ég tel að því sé mjög vel fyrir komið. Við þurfum alveg örugglega að tryggja það að við séum búin að kortleggja mjög vel með hvaða hætti samráðsferillinn á sér stað þegar og ef kemur upp ágreiningur um ráðstöfun lands milli landsskipulagsstefnunnar eða áætlunarinnar annars vegar og viðkomandi sveitarfélags hins vegar, í hvaða farveg á að setja þann ágreining, hvernig á leiða hann til lykta o.s.frv. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða og við þurfum að hafa til þess þol og úthald að setja þetta í þróunarfarveg þar sem fyrst og fremst gildir og er til staðar traust milli þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Mig langar að lokum að þakka fyrir umræðuna og óska nefndinni velfarnaðar í þessu mikilvæga verkefni og segi það nú að hringnum sé lokað og þegar umhverfisráðherrar úr öllum flokkum hafa talað fyrir frumvarpi til skipulagslaga held ég að við ættum að hafa það í þetta sinn.