138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mannvirki. Vorið 2002 ákvað umhverfisráðuneytið að ráðast í heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, eins og hér hefur lauslega verið drepið á. Í þessu skyni voru skipaðar tvær nefndir. Nefndirnar skiluðu vorið 2006 tillögum sínum í formi tveggja frumvarpa, annars vegar frumvarps til skipulagslaga og hins vegar frumvarps til laga um mannvirki. Í nefnd um endurskoðun byggingarhlutans áttu sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, forsætisráðuneytis, Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Brunamálastofnunar. Nefndin hafði samráð við fjölmarga aðila við gerð frumvarpsins, þar með talinn sérstakan ráðgjafarhóp sem skipaður var helstu hagsmunaaðilum á sviði mannvirkjamála.

Sumarið 2006 fór fram af hálfu umhverfisráðuneytis víðtæk kynning á framangreindum frumvörpum og voru þau send 159 aðilum, þar á meðal öllum sveitarfélögum landsins. Jafnframt kynnti ráðuneytið frumvörpin í fjölmiðlum og á heimasíðu sinni og var almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við efni þeirra. Ráðuneytið fór vandlega yfir þær tæplega 70 skriflegu athugasemdir sem því bárust og voru m.a. vegna þeirra gerðar breytingar á frumvörpunum. Frumvarpið var lagt fram á 133. og 135. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.

Í frumvarpi til nýrra laga um mannvirki er lögð til ný skipan um stjórnsýslu mannvirkjamála en þó byggt á þeim grunni sem fyrir er. Lögð hefur verið á það áhersla að líta heildstætt á alla löggjöf þar sem fjallað er um öryggi og heilnæmi mannvirkja með það að markmiði að gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt. Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfir að ráða faglegri hæfni til að hafa með höndum yfirstjórn byggingareftirlits í landinu með það að meginmarkmiði að auka öryggi mannvirkja og gæði. Gert er ráð fyrir að Byggingarstofnun taki til starfa við gildistöku laganna þann 1. janúar 2011 og frá sama tíma verði Brunamálastofnun lögð niður og verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar.

Þá er lagt til að aðgengismál verði í höndum Byggingarstofnunar og enn fremur að fyrir gildistöku laganna verði heimilt að skipa forstjóra Byggingarstofnunar sem skal vinna að undirbúningi gildistöku laganna í samráði við umhverfisráðherra.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að meginþungi byggingareftirlits í landinu verði áfram í höndum sveitarfélaganna en mannvirki á tilteknum svæðum verði þó háð byggingarleyfi og byggingareftirliti Byggingarstofnunar, þ.e. mannvirki á hafi utan sveitarfélagamarka og mannvirki á varnar- og öryggissvæðum eins og þau eru skilgreind í varnarmálalögum, nr. 34/2003, og lögum um ráðstafanir í kjölfar samningsins við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006.

Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að byggingarnefndir verði valkvæðar og að sveitarstjórnir komi ekki með beinum hætti að stjórnsýslu byggingarmála nema með setningu sérstakrar samþykktar. Verði hlutverk sveitarstjórna að ráða byggingarfulltrúa sem síðan muni sinna útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd byggingareftirlits.

Í eðli sínu eru byggingarmál tæknileg mál. Þess vegna er eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði. Landnotkun og fyrirkomulag byggðar verða hins vegar áfram í höndum sveitarstjórna og skipulagsnefnda á grundvelli skipulagslaga. Þar sem lagt er til að skipulags- og byggingarlögum verði skipt í tvenn lög er nauðsynlegt að settar verði skýrar línur um mörk þessara laga. Gert er ráð fyrir að í lögum um mannvirki verði ákvæði er varða tæknilega gerð mannvirkja, sérstaklega varðandi öryggi, heilnæmi og aðgengi. Ákvæði er varða staðsetningu og umhverfi mannvirkja tilheyra hins vegar skipulagslögum. Þá mun þurfa samþykki skipulagsnefndar fyrir útgáfu byggingarleyfis varðandi breytingu á mannvirkjum hvað varðar útlit og form nema um óverulega breytingu sé að ræða.

Gert er ráð fyrir að allt byggingareftirlit verði framkvæmt af faggiltum aðila í samræmi við ákvörðun skoðunarhandbókar sem Byggingarstofnun býr til. Þetta þýðir að annaðhvort er byggingareftirlit, þá aðallega yfirferð hönnunargagna og framkvæmd úttektar, framkvæmt af faggiltum skoðunarstofum eða byggingarfulltrúum sem þá þurfa að hafa fengið faggildingu til að annast slíkt eftirlit.

Sama gildir um það beina eftirlit sem Byggingarstofnun mun hafa með höndum. Henni verður annaðhvort heimilt að fela það faggiltum skoðunarstofum eða annast það sjálf og þarf þá að afla sér faggildingar. Í frumvarpinu eru tiltekin þau hæfisskilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla til að geta öðlast faggildingu og er gert ráð fyrir að þau séu misströng eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fleiri mannvirki en áður verði háð byggingarleyfi. Hér er um að ræða virkjanir og mannvirki á hafi utan sveitarfélagamarka. Áfram er gert ráð fyrir að tiltekin mannvirki falli utan gildissviðs laganna, svo sem fráveitumannvirki, dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, varnargarðar og samgöngumannvirki. Þessi mannvirki og eftirlit með þeim falla undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög og því eru þau undanþegin ákvæðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er lögð á það áhersla að skýra hlutverk og ábyrgð eiganda mannvirkis, hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara betur en gert er í gildandi lögum. Tekið er fram að hin endanlega ábyrgð sé eigandans en hann ráði til sín fagaðila sem sjái um afmarkaða þætti mannvirkjagerðarinnar og beri ábyrgð gagnvart eiganda. Þeir sjái um innra eftirlit eigandans og beiti gæðastjórnunarkerfum við undirbúning og stjórnun framkvæmda.

Í frumvarpinu er leitast við að tryggja öguð vinnubrögð þeirra sem að mannvirkjagerðinni koma með því að gera kröfu um að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi varðandi þá þætti rekstrar þeirra sem snýr að lögum og reglum um mannvirkjagerð. Á þetta bæði við um hönnuði, byggingarstjóra og iðnmeistara. Vonast er til að þessi ákvæði leiði til bættra vinnubragða við mannvirkjagerð og þar með til hagsbóta fyrir neytendur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggingarstofnun rannsaki sérstaklega tjón á mannvirkjum sem valda manntjóni eða alvarlegri hættu eða er til þess fallið að skapa hættu, svo sem af völdum veðurs, jarðskjálfta, flóða eða annarrar náttúruvár, eða ef mannvirki t.d. hrynja eða skemmast illa af óþekktum ástæðum. Hugsunin að baki því ákvæði frumvarpsins er að finna orsakir slíkra tjóna og læra af þeim mistökum sem kunna að hafa átt sér stað við hönnun eða gerð mannvirkis. Einnig geta slíkar rannsóknir leitt í ljós að breyta þurfi reglum um hönnun og byggingu mannvirkja. Nokkuð hefur skort á að slíkar rannsóknir fari fram með skipulögðum og markvissum hætti.

Þessu til viðbótar skal Byggingarstofnun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins árlega gefa út skýrslu um stöðu og þróun mannvirkjagerðar í landinu í því skyni að auka yfirsýn yfir þennan víðfeðma og flókna málaflokk.

Lagt er til að gjald með nýju heiti, byggingaröryggisgjald, muni fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar. Ekki er um nýtt gjald að ræða heldur hefur ákvæði um svokallað brunavarnagjald, sem innheimt hefur verið á grundvelli laga um brunavarnir, verið fært inn í frumvarp til laga um mannvirki. Skattstofn gjaldsins er óbreyttur og er það innheimt áfram af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Hér er hins vegar lagt til að gjaldið verði hækkað úr 0,045 prómillum í 0,07. Hingað til hefur brunavarnagjaldi einungis verið ætlað að standa undir rekstri Brunamálastofnunar vegna yfirumsjónar með brunavörnum en hér er lagt til að byggingaröryggisgjaldið renni til Byggingarstofnunar og standi þannig undir kostnaði við yfirumsjón byggingaröryggismála almennt. Með því að leggja slíkt gjald á brunatryggingar er gjaldtökunni dreift á mörg ár, þ.e. allan líftíma mannvirkisins, í stað þess að innheimta hærra gjald einu sinni í upphafi mannvirkjagerðar. Eigendur mannvirkja eiga að njóta góðs af yfireftirliti og umsjón Byggingarstofnunar allan líftíma mannvirkisins og því mæla góð rök með því að þessi leið verði valin.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Breytingin er í því fólgin að árlegt gjald af brunatryggðum húseignum sem er helsti tekjustofn Ofanflóðasjóðs lækki úr 0,3 prómillum í 0,26. Fjárþörf Ofanflóðasjóðs er mætt þrátt fyrir þá lækkun sem hér er lögð til en framkvæmdatími hefur lengst frá því sem upphaflega er gert ráð fyrir. Þessi lækkun mun vega upp á móti hækkun brunavarnagjaldsins sem í frumvarpinu er nefnt byggingaröryggisgjald, eins og áður segir, þannig að gjaldtaka af brunatryggingum húseigna lækkar þegar á heildina er litið.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps um mannvirki og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar en ég mæli einnig fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.

Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum um brunavarnir vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á löggjöf um byggingarmálefni í frumvarpi til laga um mannvirki sem áður var mælt fyrir. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra níu ára sem lögin hafa verið í gildi.

Í frumvarpi til laga um mannvirki eru, eins og ég hef lýst hér fyrr, lagðar til margháttaðar breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Er lagt til að hin nýja stofnun, Byggingarstofnun, taki við því hlutverki sem Brunamálstofnun hefur sinnt á grundvelli laga um brunavarnir. Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að öll ákvæði sem hafa verið í lögum um brunavarnir varðandi hlutverk Brunamálastofnunar færist undir lög um mannvirki og undir Byggingarstofnun. Enn fremur er lagt til að brunamálaráð verði lagt niður.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að Byggingarstofnun leiti í störfum sínum samráðs við hina ýmsu hagsmunaaðila, þar með talið Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fagráð starfi að baki stofnuninni heldur leiti stofnunin þeirrar ráðgjafar sem hún þarfnast hverju sinni eftir aðstæðum. Útvíkkun á hlutverki stofnunarinnar kallar á samráð við mun fleiri aðila en þá sem setið hafa í brunamálaráði. Eðlilegt er að stofnunin skipuleggi sjálf einhvers konar samráðsvettvang, mismunandi eftir málefnum og málaflokkum sem undir stofnunina heyra. Ekki er talin þörf á að binda slíkt samráð eða fyrirkomulag þess í lög umfram það sem gert er í frumvarpi því sem áður var mælt fyrir um mannvirki.

Auk þessa er lagt til að skólaráð Brunamálaskólans verði lagt niður í núverandi mynd en í stað þess verði skipað sérstakt fagráð sem hafi það hlutverk að vera Byggingarstofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar tilnefni í fagráð Brunamálaskólans og skólaráð, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, auk Félags slökkviliðsstjóra. Þá er formaður skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Gert er ráð fyrir að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög og að mestu óbreytt fyrir utan þær breytingar á yfirstjórn málaflokksins sem hér eru raktar enda hafa þau í aðalatriðum reynst vel frá því að þau tóku gildi í ársbyrjun 2001.

Meðal annarra breytinga má nefna að lagt er til að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum verði eitt af lögbundnum hlutverkum slökkviliðs. Í meira en áratug hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu. Björgun fólks úr farartækjum, t.d. eftir umferðarslys, krefst sérhæfðs búnaðar og þjálfunar þeirra sem búnaðinn nota. Þegar beita þarf slíkum tækjum er nauðsynlegt að slökkvilið sé á staðnum vegna eldhættu við farartækið. Hefur því skapast sú hefð að slökkvilið sinni þessu verkefni og er kennsla í meðferð búnaðarins hluti af námsefni Brunamálaskólans. Búnaðurinn nýtist einnig við björgun fólks úr mannvirkjum, en ekki er þó átt við þá starfsemi björgunarsveita sem felst í rústabjörgun. Var ákveðið að höfðu samráði við dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti að lögbinda þetta hlutverk við slökkvilið landsins. Með því að gera verkefni lögbundið er tryggt að þessi þjónusta sé fyrir hendi á öllu landinu og uppfylli tilteknar lágmarkskröfur.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni þessara tveggja frumvarpa, annars vegar um mannvirki og hins vegar um brunavarnir, og legg til að þeim verði báðum að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.