138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[19:01]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri líka áhugavert að fá aðeins fram sýn hæstv. ráðherra á fyrirkomulag eldvarnaeftirlitsins eða eldvarna þar sem núna er verið að sameina eða fella Brunamálastofnun inn í nýja stofnun. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessari sérgrein, sérstaklega eftirliti, verði komið fyrir í nýrri stofnun? Verður það sérstök deild? Verður þessu mikilvæga hlutverki tryggt það svigrúm eða sú staða sem það hefur í dag innan nýrrar stofnunar? Það er mikilvægt að þessu hlutverki verði ekki ýtt til hliðar. Kostnaður við eftirlit á byggingartíma. Í þessu flókna ferli öllu saman þar sem margir gætu komið að í þessari nýju stofnun, mun eftirlitið verða einfaldara eða mun það verða flóknara? Eru fleiri aðilar sem koma að viðkomandi stofnun? Eins til að vísa í það sem við erum að uppskera núna af þeim hraða sem var í byggingarframkvæmdum á þessu tímabili. Árangur þessa þenslutímabils er núna að koma fram í byggingum (Forseti hringir.) sem eru ófullkomnar, skemmdar eða alls ekki samkvæmt (Forseti hringir.) byggingarreglugerðum eins og þær eru í dag.