138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða stöðuna í Icesave-málinu við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Það er ljóst af fréttum í dag og í gær að komin eru upp mjög sterk viðbrögð á Norðurlöndunum. Fulltrúi finnska fjármálaráðuneytisins segir að ekki verði greitt út af finnskum lánum fyrr en Icesave-máli sé lokið. Sænski forsætisráðherrann segir: Sænsku lánin eru háð því að samkomulag náist í Icesave-málinu. Íslendingar verða að virða sínar alþjóðlegu skuldbindingar. Norðmenn taka í sama streng. Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra segir að Norðmenn muni ekki greiða meira fyrr en Íslendingar hafi staðið við sínar alþjóðlegu skuldbindingar, þeir muni ekki taka sig út úr hópi annarra þjóða og lána fé óháð Icesave.

Ef þetta gengur eftir má ljóst vera að efnahagsplan ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: Hvaða plan?) í samstarfi við AGS er í algeru uppnámi. Takist okkur ekki að ganga frá Icesave-málinu tekst okkur ekki að fá fjármögnun í gegnum AGS-prógrammið. Telur þingmaðurinn ekki rétt að freista þess að ljúka þessu Icesave-máli á næstu dögum eða vikum í anda þess þverpólitíska samstarfs sem ríkt hefur á þinginu? (Gripið fram í.) Er þingmaðurinn því fylgjandi að taka Icesave-málið algerlega upp frá grunni eins og sum innan stjórnarandstöðunnar vilja og þannig fresta AGS-planinu um óákveðinn tíma (Gripið fram í.) eða er hann þeirrar skoðunar að algerlega beri að hætta við AGS-planið og fá þannig ekki inn erlent fjármagn?

Fram hafa komið mjög ákveðin viðbrögð á Norðurlöndum um að Íslendingar fái ekki krónu greidda fyrr en Icesave-málinu er lokið. Það setur efnahagsplan um uppbyggingu hér á landi í algert uppnám. Eigum við að reyna að ljúka þessu máli saman í anda efnahagsplansins í samstarfi við AGS eða ætlum við að setja það plan í algert uppnám og um leið leið okkar út úr kreppunni?