138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er svolítið gaman að hlusta á fulltrúa Samfylkingarinnar tala hérna vegna þess að undir liðnum um störf þingsins hóf hv. þm. Magnús Orri Schram þá umræðu með því að hrauna yfir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson í Icesave-málinu. Það var aldeilis ekki sáttatónn í þeirri ræðu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Róbert Marshall segir, við eigum að sýna einhverja samstöðu hérna, við eigum að sýna samstöðu á þinginu, bæði í orði og á borði. Það á að hætta að etja flokkunum saman í þessu máli. Við bárum gæfu til þess að fara saman til samninga við Hollendinga og Breta. Það kom sameiginlegt tilboð frá öllum flokkunum, það var frábær sigur að ná því fram. Það kom gagntilboð sem við sættum okkur ekki við. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði opinberlega að það gagntilboð væri of langt frá okkar tilboði. Það var mjög mikilvæg yfirlýsing af hans hálfu og allir voru sammála um þetta. Þar stendur málið. Síðan er þjóðaratkvæðagreiðslan búin, þetta ákveðna nei kom og núna þurfum við að halda áfram að semja. Þá er ekki tíminn réttur til að etja flokkunum saman. Nú eigum við að standa saman, öll sem eitt, og semja við viðsemjendur okkar, ekki að rífast innbyrðis, það er ekki tími til þess núna.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan. Ég skildi orð hans þannig að hann væri að tala um þá gagnrýni sem komið hefur fram á Norðurlöndin. Menn verða að gæta sín á Íslandi. Við erum að fá lán frá Norðurlöndunum. Þetta eru mikilvægir vinir okkar sem ætla að lána okkur fjármagn. Auðvitað þykir okkur svolítið óþægilegt að þeir skuli tengja það við að leysa Icesave-deiluna af því að við erum ekki búin að leysa hana, (Forseti hringir.) en menn skulu gæta sín þegar þeir tala við nágrannaþjóðir sínar. Það er ekki hægt að segja hvað sem er við þá sem ætla að lána (Forseti hringir.) og þá sem eru vinir okkar í reynd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)