138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fór fram að frumkvæði hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Ef við getum talað um að við eigum að geta sameinast um eitthvað í þessum sal er það nákvæmlega að leysa úr þeirri óvissu sem er hjá fólki í miklum skuldavanda.

Ég vil í leiðinni ræða tvennt: Að frumkvæði okkar í stjórnarandstöðunni var sérstaklega rætt um að kanna ætti hverjir eiga bankana og við fengum fulltrúa bankanna á okkar fund í janúarmánuði til þess. Það er skemmst frá því að segja að það liggur ekki enn þá fyrir. Það átti að liggja fyrir um mánaðamótin janúar/febrúar, í það minnsta hvað varðar annan bankann. Ég veit ekki til þess að það hafi verið kunngert en það má þó vera en það held ég að sé mikilvægt að við fáum á hreint. Ég hvet hv. formann viðskiptanefndar til að fylgja því eftir og þá í leiðinni að upplýsa um hvort það sé rétt sem kemur fram í frétt Morgunblaðsins laugardaginn 27. febrúar. Þar segir að starfsmenn ríkisbankans NBI geti átt von á vænum kaupauka á árinu 2012 eða síðar samkvæmt samkomulagi sem kröfuhafar gamla Landsbankans gerðu við fjármálaráðuneytið. Hér er verið að tala um, ef eitthvað er að marka þessa frétt, gríðarlega mikinn kaupauka sem gerður var vegna samnings á milli kröfuhafa og fjármálaráðuneytis.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða hreinan ríkisbanka. Við getum rætt alþjóðlega fjármálahrunið lengi. Einn þátturinn í því er sá að menn fóru út í mjög óskynsamleg kaupaukakerfi. Ég held að þetta sé í það minnsta þess virði að við ræðum það í hv. viðskiptanefnd og fáum upplýst hvort þetta sé rétt og á hvaða forsendum það er. Ég held að það komi flestum (Forseti hringir.) spánskt fyrir sjónir sem eru í mikilli baráttu í bankanum um að fá að halda húsum sínum (Forseti hringir.) og fyrirtækjum. Þess vegna hvet ég hv. formann viðskiptanefndar (Forseti hringir.) til að funda um þetta sérstaklega, virðulegi forseti.