138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Orri Schram velti því fyrir sér af hverju Norðurlandaþjóðirnar væru ekki búnar að afgreiða lánin og sagði svo í kjölfarið að af þeim sökum yrðum við að klára Icesave-deiluna. Ég vil í fyrsta lagi segja að það stendur svolítið upp á Íslendinga, eins og kom fram í máli Jonas Gahrs Støres, utanríkisráðherra Norðmanna. Íslendingar hafa ekki beðið um lánafyrirgreiðslur óháð aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er fyrsta atriðið.

Í annan stað segir hv. þingmaður: Við verðum að ljúka málinu, við verðum að semja. En þá skulum við átta okkur á einu: Um hvað eigum við að semja? Hvar getum við komist að sanngjarnri niðurstöðu fyrir íslenska þjóð? Ég held að þjóðin hafi sagt það mjög skýrt að hún sættir sig ekki við hvað sem er. 98% Íslendinga sögðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni: Nei, við ætlum ekki að sætta okkur við hvað sem er.

Þá langar mig líka að spyrja: Hver er lánsfjárþörfin? Það kom fram í máli seðlabankastjóra þegar hann hitti fjárlaganefnd og í máli fjármálaráðherra sjálfs að lánsþörf ríkissjóðs væri mun minni en áður var haldið. Ég spurði báða hvort búið væri að meta hver hún væri. Nei, hún liggur ekki alveg fyrir. Hér kalla menn á lán, hér kalla menn eftir því að við klárum Icesave til að við fáum lán. Þurfum við ekki að vita hver lánsþörfin er? Er það ekki fyrsta skrefið? Getur verið að við höfum sparað okkur tugi milljarða með því að hafa ekki verið búin að taka þessi lán? (Forseti hringir.) Það eru svona hlutir sem við þurfum að fara yfir á málefnalegan hátt áður en við hendum fram einhverjum órökstuddum (Forseti hringir.) yfirlýsingum í þingsal.