138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:35]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með innlegg mitt í þessa atvinnumálaumræðu. Ég leyfi mér að benda líka á varðandi álverin, svo við höldum áfram með það, að í draumalandinu Austurlandi er meira atvinnuleysi en t.d. á Vestfjörðum og að þar er meira atvinnuleysi en á Norðurlandi vestra. Þar eru hins vegar engin álver. Íbúðalánasjóður hefur sett met hvað landshluta varðar í að þurfa að leysa til sín autt húsnæði á Austfjörðum líka þannig að það er ekki allt sem sýnist með þessi álver.

Ég starfaði sjálfur við það í nokkur ár að flytja út ál og þekki þennan iðnað ágætlega. Hann getur átt við við ákveðnar kringumstæður eins og hann gerði 1968–1970 en hér er um allt annað landslag að ræða.

Það þarf að leysa úr læðingi innlenda fjárfestingu. Það þarf að lækka hér vexti. Það þarf að leysa úr læðingi einkaneyslu með aðgerðum í þágu heimila og niðurfærslum lána. Þannig mundi komast almennilegur gangur í hagkerfið, ekki með því að sitja og bíða eftir að hingað komi einhverjir erlendir menn með peninga þegar þeim hentar.

Endurskipulagning í t.d. landbúnaði á öllum þeim jörðum sem hafa fallið í skaut auðjöfrum eða standa ónýttar er vannýtt auðlind. Við skulum gera okkur grein fyrir því að núna er tími fyrir Ísland til að nýta sér þessar afurðir, fiskveiðar og landbúnað, til útflutnings vegna lágs gengis krónunnar. Þarna liggja hagsmunir og peningar.

Þessi Icesave-smjörklípa sem ég leyfi mér að kalla, sem Samfylkingin hefur verið svolítið dugleg við að grípa til og segja að allt sé stopp út af Icesave, er einfaldlega smjörklípa. Það er ekki rétt að allt sé strand út af því. Hér innan lands er hægt að leysa úr hlutunum og það er okkar að leysa úr þeim. Við gerum það ekki með því að skrifa undir hvaða skilmála sem er í Icesave og við gerum það ekki með því að sóa íslenskri orku í álver.