138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

450. mál
[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Þessu frumvarpi er ætlað að bregðast við þeim erfiðleikum sem eru í okkar atvinnulífi og einkum þröngri stöðu fyrirtækja vegna þess samdráttar sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Það má segja að um sé að ræða nokkurs konar greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið og þetta er hliðstætt mál og flutt var um svipað leyti á síðasta þingi og þá gripið til ráðstafana af þessum toga.

Þetta snýr að því að vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar verði á árinu 2010 hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda dreift á tvo gjalddaga í stað eins. Eins og áður sagði var hliðstæð greiðsluaðlögun lögfest á síðasta vorþingi, það voru lög nr. 17/2009 sem breyttu þessum sömu lögum, tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt en sú ráðstöfun var tímabundin og gilti aðeins fyrir árið 2009. Í þessu frumvarpi er lagt til að þessi greiðsluaðlögun verði framlengd tímabundið, þó þannig að gjalddagar verði einungis tveir, en samkvæmt lögum nr. 17/2009 voru gjalddagarnir þrír fyrir hvert uppgjörstímabil. Hér er sem sagt verið að bakka út úr þessari greiðsluaðlögun í áföngum og reiknað með því að skilin verði komin í eðlilegt horf um mitt þetta ár þannig að uppgjörstímabil á síðari hluta ársins verði eins og hefðbundið hefur verið.

Verði frumvarpið að lögum hefur það engin áhrif á tekjur ríkissjóðs innan ársins þar sem einungis er um að ræða tilfærslu í innheimtu og má kannski reikna með lítils háttar vaxtatapi fyrir ríkið, greiðslur berast þá síðar innan uppgjörstímabilanna. En það er ekki stórvægilegt mál borið saman við það að þetta auðveldar fyrirtækjum mjög að standa skil á þessum gjöldum, að hafa möguleikana á að dreifa þeim á tvær greiðslur.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari. Ég biðst velvirðingar á því hversu seint málið kemur fram miðað við gjalddagana sem því er ætlað að taka til. Vegna þess hvernig til háttar í störfum þingsins, en ekki verður fundað á næstu dögum, væri ákaflega æskilegt ef þingið sæi sér fært að afgreiða þetta mál áður en það gerir hlé á störfum sínum vegna nefndadaga þannig að á næsta gjalddaga sem fram undan er og þetta tekur til, 15. þessa mánaðar, verði hin nýja skipan lögfest.