138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðast og þarsíðast þegar reynt var að ræða um fjölmiðla snerist öll umræðan um eignarhald og takmarkanir á því. Það réð líka þeirri för að það var tekið út fyrir sviga núna og sett í þennan sérstaka farveg, ekki aðeins breyttar aðstæður. Ég tel mikla þörf á því að við náum í gegn heildstæðum lögum um fjölmiðla og að við ræðum dálítið um inntak þeirra og ekki bara þetta eina atriði sem langmesta umfjöllun hefur hlotið á hinu pólitíska sviði.

Hvað varðar auglýsingatakmarkanir liggur fyrir að umtalsverður hluti tekna RÚV kemur af auglýsingum, 1,5 milljarðar á móti þeim 3,5 milljörðum sem settir voru í RÚV á síðasta ári. Hins vegar er ég í prinsippinu sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, það væri mjög æskilegt að RÚV drægi úr umsvifum sínum á auglýsingamarkaði. Ég hef hins vegar ávallt haldið því til haga að þá þyrftum við að bæta það væntanlega af hálfu ríkisins til að við gætum haldið uppi öflugu Ríkisútvarpi en það væri auðvitað hin æskilega staða.