138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá kostnaður sem mundi leggjast til út af þessu frumvarpi mundi líklega leggjast á næsta fjárlagaár, 2011. Við munum gera grein fyrir því í tillögum okkar fyrir þau fjárlög hvernig við sjáum fyrir okkur að þetta geti gengið eftir og hugum að sjálfsögðu að ýtrasta sparnaði í því, til að mynda með samnýtingu á húsnæði eins og ég nefndi áðan með Póst- og fjarskiptastofnun og fleira.

Hvað varðar eignarhaldið, er auðvitað kveðið þarna á um í fyrsta sinn að eignarhald sé upplýst og gagnsætt. Fjölmiðlastofa mundi væntanlega sjá um að miðla þeim upplýsingum, til að mynda höfum við ákveðnar fyrirmyndir frá Noregi þar sem fjölmiðlastofa þar í landi er hreinlega með heimasíðu sem gerir grein fyrir öllu eignarhaldi, þannig að þeir sem neyta fjölmiðlanna, og þetta eru auðvitað mikilvægar upplýsingar, viti hver á fjölmiðilinn í hverju tilviki og það eru mjög mikilvægar upplýsingar fyrir alla sem neyta fjölmiðla.