138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[16:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að fara stuttlega yfir helstu mál, atriði og spurningar sem hafa kviknað við lestur frumvarpsins. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið það nákvæmlega frá orði til orðs en samt er margt af þessu kunnuglegt frá frumvarpinu sem við ræddum árið 2006.

Það er kærkomið tækifæri að við ræðum núna heildstætt um fjölmiðlana, að við skiljum þá ekki að eins og verið hefur fram til þessa. Það má segja að það umhverfi sé barn síns tíma, það hafi verið skiljanlegt á sínum tíma en það er kominn tími til að við ræðum fjölmiðlana heildstætt. Því ber að fagna sérstaklega að við ræðum núna lög um alla fjölmiðla, aðskiljum ekki prentmiðlana frá ljósvakamiðlunum. Það er fagnaðarefni.

Eins og ég gat um áðan í andsvari eru í frumvarpinu eðlileg og sjálfsögð atriði eins og það þegar menn fara yfir ákveðna málsmeðferð um hvernig flutningsrétti og flutningsskyldu er háttað, það er farið inn á ritstjórnarlegt sjálfstæði sem er sjálfsagt að mínu mati en um leið verða fjölmiðlar að átta sig á ábyrgð sinni. Þeir hafa oft verið kallaðir fjórða valdið og oftar en ekki hafa þeir staðið undir því en það hefur brugðist líka eins og hitt valdið í samfélagið, það verður að segjast alveg eins og er. Það verða allir að líta í eigin barm. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við mótum heilbrigðan ramma fyrir kröftugt fjölmiðlaumhverfi þannig að það geti þrifist á þeim forsendum sem fjölmiðlarnir ætla sér undir ákveðnu regluverki. Það verður að taka tillit til eðlilegra reglna samfélagsins, stjórnarskrárinnar, mannréttindaákvæða o.fl.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að við sameinumst um það markmið að hér ríki fjölbreytni í fjölmiðlum. Ég held að það sé núna ákveðin ógnun við íslenskt samfélag að við sjáum ekki eins mikla flóru fjölmiðla og maður hefði kannski kosið, þ.e. ef við lítum bara til prentmiðlanna. Síðan verður að segja á móti að vefmiðlarnir eru mjög vaxandi, eru orðnir ríkjandi partur af manns eigin fjölmiðlahegðun ef svo má að orði komast. Ég held að flestir fari inn á alla vefmiðlana þannig að þeir hafa komið á móti því að prentmiðlar hafa kannski átt undir högg að sækja.

Ég tel mikilvægt að við sem sagt undirstrikum fjölbreytnina á fjölmiðlum eins og við getum. En hvernig er það hægt? Við verðum að huga að því að við erum með einn öflugan ríkisfjölmiðil sem er Ríkisútvarpið. Settar hafa verið ákveðnar leikreglur um Ríkisútvarpið, ákveðinn rammi sem Ríkisútvarpinu ber að fara eftir, og þá verður að fylgja því eftir líka að Ríkisútvarpið starfi eftir m.a. þjónustusamningnum og þeim lögum sem nú eru í landinu. Um leið verður að huga að því að svigrúm Ríkisútvarpsins — ég er ekki að segja neitt mikið, ég hef sagt þetta margoft áður — skaði ekki þá fjölbreytni sem við kjósum að hafa á markaði. Þá hljótum við að tala um hvort ekki sé rétt að takmarka auglýsingar Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði á einhvern hátt.

Menn hafa verið með ýmsar hugmyndir. Er rétt að gera eins og t.d. ARD og ZDF gera í Þýskalandi sem leyfa ríkisstjórninni eingöngu að auglýsa á ákveðnu tímabili, kostun er reyndar leyfð líka, en til að mynda í Þýskalandi fá ríkisfjölmiðlarnir að vera með auglýsingar á tímabilinu kl. 18–20. Síðan eru kostanir leyfðar við íþróttaviðburði o.fl. Ég held að mikilvægt sé að fara yfir þessa þætti þegar við skoðum þetta markmið okkar, sem ég vona að sé sameiginlegt, að hafa fjölbreytta fjölmiðla. Þá ber okkur sem hér störfum skylda til að reyna að huga að öllum þeim þáttum sem geta stuðlað að því að einkareknir fjölmiðlar geti starfað hér með eðlilegum hætti, það verður að gerast. Auglýsingamarkaðurinn er takmarkaður. Hann er bara eitt mengi og þá verðum við að huga að því hvernig það mengi geti sem ríkulegast farið til einkaaðila af því að þeir geta ekki farið þær leiðir sem Ríkisútvarpið hefur haft fram til þessa. Á móti kemur spurningin: Á þá að skera niður hjá Ríkisútvarpinu? Allt eins, og líka að gera þá strangari kröfur og hafa rammann þrengri. Ríkisútvarpið verður að forgangsraða enn þá meira í þágu menningarmiðlunar, menningarefnis og þá verður eitthvað annað undan að láta. Menn verða einfaldlega að horfast í augu við það, það er bara þannig. Fréttir, menningin og þessi þjónusta í þágu almennings eru það sem Ríkisútvarpið á að sinna og það verða menn einfaldlega að meta ef eitthvað annað verður undan að láta. Ef auglýsingapartur Ríkisútvarpsins skerðir fjölbreytni á markaði verður einfaldlega að fara yfir það og ég tel að nefndin eigi að gera það núna þegar hún fær málið til umfjöllunar.

Það er hægt að fara yfir margvíslegar ógnanir fjölmiðlunar. Sumir hafa dregið fram að ramminn verði að vera skýr. Ef hann er óskýr getur hann boðið upp á misnotkun. Misnotkun getur hugsanlega farið í gegnum eignarhald, hún getur líka farið í gegnum aðra þætti og þá bara beint í gegnum starfsmenn sem slíka. Ef við búum til þessa heilbrigðu löggjöf, rammalöggjöf um alla þessa þætti, held ég að við munum halda áfram að sjá nokkuð gott fjölmiðlaumhverfi. Fjölmiðlarnir þurfa sitt aðhald alveg eins og stjórnmálamennirnir.

Þegar ég lít til alþjóðlegu fjölmiðlanna og til Dana og núna annarra Norðurlanda sem hafa tjáð sig með ákveðnum hætti, eins og t.d. um hinar svokölluðu múhameðsteikningar, finnst mér það vera ógn við tjáningarfrelsið. Ef við flettum í töflunum í frumvarpinu sjáum við á töflunni sem sýnir lestur dagblaða að langmesti dagblaðalesturinn er hjá norrænu þjóðunum. Það segir mér að við sem búum á Norðurlöndunum lítum mikið til fjölmiðla almennt og lesturs dagblaða og þá er vont ef sá þáttur í lýðræðisríki á að takmarkast af því að einhverjir, hvort sem það eru ákveðnir trúarhópar eða aðrir, sætta sig ekki við þá umfjöllun sem blöðin hafa fram að færa. Mér finnst vont að sjá að menn ætli að draga í land og biðjast afsökunar á myndbirtingunni vegna múhameðsteikninganna. Með þessu er ég þó ekki að taka undir að menn eigi að grínast með trúarbrögð, síður en svo. Blöðin verða að fara varlega varðandi allt er tengist trúarbrögðum, hvort sem það er múhameðstrú, kristin trú eða önnur. Menn verða að sýna trúarbrögðunum tilhlýðilega virðingu en það má heldur ekki skerða tjáningarfrelsið á þennan hátt. Þetta er nokkuð sem við sem tilheyrum vestrænum þjóðum verðum að gæta okkar á á næstu árum.

Ég nefndi það í andsvari áðan með eignarhaldið að mér kemur svo sem ekki á óvart að þessir tveir flokkar sem komu í veg fyrir að hér yrði sett rammalöggjöf um eignarhald á fjölmiðlum skuli ekki setja fram í þessu frumvarpi ákvæði um eignarhald. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gat þess að það yrði þá til þess að aðrir þættir í frumvarpinu fengju meiri fókus en bara eignarhaldið. Gott og vel, en ég hef einfaldlega meiri trú á því að þingið geti fjallað um þetta heildstætt. Það er verið að kalla eftir heildstæðri nálgun og ég held að eignarhaldið sé hluti af þeim ramma sem verður að vera tekinn með þegar við fjöllum um svigrúm og mörk fjölmiðla á Íslandi. Ég hefði þá kosið að menn hefðu allt eins beðið fram á haustið með þetta frumvarp þar til sá þáttur væri afgreiddur. Það liggur mikið efni fyrir og menn þurfa ekki að vera mjög lengi að vinna þá vinnu.

Það vekur hjá mér mjög miklar spurningar að við skulum setja Fjölmiðlastofu á laggirnar, ekki síst núna þegar árferðið er eins og það er. Ég verð að spyrja eins og fleiri hafa gert: Hvernig ætlar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að forgangsraða í ráðuneyti sínu? Nú verður að beita niðurskurðarhnífnum. Við vitum það og ég held að það megi sérstaklega telja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra það til tekna að hún hefur talað mjög tæpitungulaust um að gæta þurfi aðhalds, hefur ekki endilega leitað annarra möguleika eins og þeirra að hækka gjöld eða auka skatta. Það þýðir að með Fjölmiðlastofu þarf mennta- og menningarmálaráðherra að forgangsraða annars staðar, þannig er það. Ég er ekki viss um að ég mundi kjósa að sjá Fjölmiðlastofu setta á laggirnar gegn því að skorið yrði t.d. niður í skólamálum eða hjá ákveðnum menningarstofnunum sem eru burðarvirki menningar. Þá er ég að tala um grundvallarstofnanir á sviði menningar, hvort sem það er Þjóðleikhúsið eða Sinfónían sem eru stoðirnar undir aðra þætti menningar. Ég hef stundum nefnt þessar grundvallarríkisstofnanir á sviði menningar meginstoðir menningar.

Það sama gildir um skólamálin þannig að hlutskipti ráðherra er erfitt í þessu. Ég las um það í fjölmiðlum í dag að það ætti að slá lán fyrir þessu. Þá spyr ég: Hvernig ætla menn að gera þetta? Á að fara að byggja upp stofnanir úti um allar koppagrundir til að fullnægja hinum og þessum lagabálkum? Við höfum útvarpsréttarnefnd, hugsanlega barn síns tíma en það er engu að síður þannig árferði að ég get ekki tekið undir að það sé rétt að taka það skref í þetta sinn að fara inn í hreina og klára fjölmiðlastofnun þegar litið er til aðhaldshlutverks sem við á þingi verðum að gæta þegar kemur að ríkisfjármálum.

Ég spyr líka: Af hverju Fjölmiðlastofa? Það kemur fram að stjórnsýslan mun ekki einfaldast við þetta. Það kemur fram í frumvarpinu að eftir sem áður flyst ekki öll stjórnsýslan til Fjölmiðlastofunnar heldur verður hluti málanna sem fjallar um fjölmiðlana áfram hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Málið er ekki endilega til einföldunar eins og það blasir við. Mér finnst ekki blasa við að þetta sé til einföldunar, heldur er þetta bara ný og umfangsmeiri stofnun og hún mun, ef að líkum lætur, ekki vera minni en gert er ráð fyrir heldur verður frekar meira umleikis eins og oft og tíðum og því miður venja er þegar kemur að ríkisstofnunum.

Ég hef efasemdir um þetta. Þetta kann hugsanlega að skýrast í meðförum nefndarinnar en ég geld varhuga við þessu skrefi. Við eigum ekki að vera svona stórtæk enda segir tilskipun Evrópusambandsins ekkert fyrir um að við eigum að koma upp einhverju risabákni sem heitir Fjölmiðlastofa.

Ég vil segja að lokum, frú forseti, að það er margt gott í þessu frumvarpi, eiginlega margt feikilega gott. Þessi nálgun tengist því sem ég gat um áðan, að við eigum að ræða um fjölmiðlana sem heild, en ég verð þó að segja eins og er að ég sakna ákveðinna þátta. Ég hef nefnt eignarhaldið og takmörkun á auglýsingum Ríkisútvarpsins í þá veru. Ég spyr líka hæstv. ráðherra í ljósi þess að í rauninni er ekki mikið eftir af þinginu ef við lítum til þess að páskarnir renna bráðum í garð og síðan verða sveitarstjórnarkosningar: Er þetta forgangsmál hjá ríkisstjórninni, er þetta það mál sem þingið verður að afgreiða fyrir lok vorþings? Er þetta það sem við þurfum að vinna að næstu vikur og mánuði eða á það einfaldlega að fara til umsagnar, að menn meti málið í ljósi fjölmargra athugasemda, m.a. frá hv. þm. Róberti Marshall sem kom með margar athyglisverðar athugasemdir við umræðuna áðan? Ég vil gjarnan fá að vita hvort þetta á að klárast, hvort það á að keyra það í gegn.

Ég sakna þess að sjá ekki myndina og ég saknaði þess pínulítið í ræðu hæstv. ráðherra sem var að öðru leyti alveg ágæt og yfirgripsmikil að sjá hvaða framtíð hún sæi fyrir fjölmiðlana á Íslandi. Framtíðina er ekki hægt að teikna upp án þess að menn átti sig á því hverjir hafa tækifæri til að eiga fjölmiðla á Íslandi, hverjir hafa tækifæri til að reka fjölmiðla á grundvelli þess rekstrarumhverfis sem ríkið er að bjóða upp á. Hvernig sjáum við fjölmiðla til lengri tíma? Hvernig verður umhverfi blaðamanna og fjölmiðlamanna þegar tekið er tillit til þessara þátta og ekki síður hvernig komum við til með að sjá þróunina sem slíka í fjölmiðlaheiminum? Ég gat um það áðan að vefmiðlarnir væru jafnfjölbreyttir og þeir eru, misgóðir eins og gengur. Hvaða hlutverki munu veffjölmiðlarnir gegna á næstunni? Það væri gaman að heyra hvort hún sjái fram á öfluga prentmiðla til lengri tíma litið. Margir stjórnmálamenn, eins og t.d. úti í Bandaríkjunum, hafa sagt að prentmiðlarnir muni áfram eiga undir högg að sækja. Hvernig sér hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þessa þróun alla á fjölmiðlamarkaði?

Eftir sem áður, við höfum talað mikið um samstöðu (Forseti hringir.) og ég vona að við náum samstöðu um öfluga rammalöggjöf um fjölmiðla. Að því skulum við einbeita okkur. Við sjálfstæðismenn munum leggja okkur alla fram hvað það varðar, bæði í vinnu í nefnd sem (Forseti hringir.) og hér á þingi, en engu að síður munum við drepa á þeim málum og fara yfir þá þætti sem við teljum mikilvægt að hér verði ræddir áfram.