138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir umræðuna. Svo að ég grípi boltann frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur — framtíðarsýn fyrir fjölmiðlun, ég held að frumvarpið beri þess kannski dálítil merki, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi áðan að þetta væri tæknivætt frumvarp og fór m.a. yfir orðaval og annað slíkt, og það er alveg rétt að tæknilegt umhverfi fjölmiðla hefur breyst svo mikið á undanförnum fáum árum að það hefur gerbreytt til að mynda framtíðarsýn prentmiðla sem hv. þingmaður sem talaði á undan mér nefndi.

Í Evrópu ber þá umræðu hátt að hver og einn einstaklingur hafi í raun tækifæri til að reka sinn eigin miðil en með frumvarpinu er leitast við að gera ákveðinn greinarmun á miðli hvers einstaklings og þess sem við getum kallað faglega fjölmiðla þar sem við gerum meiri kröfur um ábyrgð og viljum um leið smíða ákveðinn ramma því að þeir hafa þessu mikilvæga hlutverki að gegna að vera fjórða valdið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við horfum til þess þegar við reynum að móta rammann um fjölmiðlana. Ég held líka að það sé alveg rétt, sem ýmsir halda fram, sem ræða um fjölmiðla út frá þessum fræðilegu og faglegu nótum, að við sem erum alin upp við línulega dagskrá, eins og það heitir á nýmáli þessa ágæta frumvarps, sjáum að sýn þeirra sem yngri eru er allt önnur á fjölmiðla, þ.e. þeir eru vanari því að panta sér efni, horfa á efni með öðrum hætti en í línulegri dagskrá svo að tekið sé til myndmiðlanna, lesa fréttir af netinu en ekki endilega í prentmiðlum. Ég hef þó þá trú, enda kannski íhaldsmanneskja á sumum sviðum, að telja að prentmiðlar eigi sér ákveðna framtíð en það er kannski ekki endilega sama staða og þeir voru í fyrir nokkrum árum þar sem þeir voru helstu fréttamiðlarnir. Prentmiðlarnir gegna sínu hlutverki um þessar mundir fremur við að framleiða efni til ítarlegri lestrar og ég held að það gæti orðið framtíð þeirra.

Við sjáum fram á talsvert breytt umhverfi sem tengist þessum tækniframförum, tengist því að fólk geti valið sér dagskrá og sleppt hlutum í staðinn fyrir að sitja bara og horfa á það sem í boði er og taka því sem í boði er. Það eru mjög breyttir tímar frá því að öll börn horfðu á Tomma & Jenna á mánudögum og Stundina okkar á sunnudögum og svo var ekkert meira barnaefni, svo að ég vitni bara í mína eigin æsku. Þannig að tækniframfarir hafa vissulega haft áhrif á þetta frumvarp.

Hér hefur talsvert verið rætt um hina nýju stofnun, Fjölmiðlastofu. Ég skil alveg þá gagnrýni sem er uppi á tímum sem dregið er úr útgjöldum í ríkisrekstri. Ég held þó að þetta sé hægt með því að samnýta aðstöðu, eins og ég nefndi áðan, með því að gera þetta á hagkvæman hátt. Við gætum auðvitað staðið hér og þrætt um það hver hefur aukið ríkisútgjöldin mest. Það er alveg rétt að það má segja sem svo að hið opinbera er kerfi sem hefur tilhneigingu til að þenjast út, óháð því hver er við stjórnvölinn. Hið opinbera hefur stækkað mjög mikið, hið opinbera, í valdatíð sjálfstæðismanna og samstarfsflokka þeirra á undanförnum árum þannig að kannski má segja að hið opinbera hafi tilhneigingu til að gera það. En ég vil þó benda á að hér erum við að ræða nýja stofnun á sviði þar sem engin stofnun er fyrir. Hún er að leysa af hólmi útvarpsréttarnefnd, sem hefur haft mjög takmarkað hlutverk, og því tel ég að hún hafi haft mjög miklu hlutverki að gegna. Við verðum að horfa á þessa stofnun út frá hlutverki hennar en ekki eingöngu út frá því að hér sé ný stofnun á ferð. Hvert er það hlutverk sem við ætlum að fela henni og skiptir það máli? Skiptir máli að einhver sinni þessu hlutverki? Út frá þeim forsendum verðum við að nálgast þetta.

Á sama tíma hafa til að mynda sex skattstofur verið sameinaðar í eina og margir orðið til að andmæla því. En ég held að við verðum að líta á það hvernig við horfum á ríkisreksturinn út frá hlutverkum þeirra stofnana sem starfa innan ríkisins og hvernig þeim hlutverkum verður sem best sinnt. Að sjálfsögðu á að horfa til þess með hagkvæmni að leiðarljósi á tímum sem þessum.

Mig langar að nefna það, út frá orðum sem féllu áðan hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, um tiltekið hlutfall dagskrárefnis, að það skuli koma frá Evrópu — sú tiltekna grein á sér raunar hliðstæðu í gildandi útvarpslögum þannig að það má kannski segja að ekki sé mikið nýmæli þar á ferð. Hins vegar tel ég það alveg ljóst, út frá þeim spurningum sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir varpaði fram áðan, að ef erlendur fjölmiðill kýs að koma hér upp sjálfstæðum fjölmiðli þá lyti sá fjölmiðill íslenskum lögum. En að þessu leyti er þetta ekkert sérstök breyting. Hins vegar felst breyting í 26. og 27. gr., sem hafa komið talsvert til umræðu, sem snýr að banni við hatursáróðri. Ég tel mjög mikilvægt að það stangist ekki á við almennar reglur tjáningarfrelsis sem hér hafa líka verið ræddar heldur snýr þetta beinlínis að hatursáróðri sem er síðan skilgreindur nánar í athugasemdum. Þetta tengist lýðræðislegum grundvallarreglum þar sem er verið að tala um hlutverk fjölmiðla, að halda ólíkum skoðunum á lofti, en að sjálfsögðu er líka vitnað til þess að samtök með tiltekin pólitísk markmið — og hér voru nefndir hugsanlegir miðlar á vegum þeirra sem eru á móti Evrópusambandinu og þeirra sem eru með Evrópusambandinu, að sjálfsögðu er ekki hægt að gera þá kröfu að þeir geri báðum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði. Hér er því reynt að leggja fram ákveðna grundvallarreglu en síðan horft til þess að á henni séu undanþágur eins og ávallt er um flestar reglur.

Mig langar aðeins að ræða líka barnaverndarákvæðin sem hér eru. Það eru tiltekin ákvæði í gildandi útvarpslögum. Hér er farin önnur útfærsla á þeim markmiðum sem þar eru sett fram og leitað til nágrannalanda okkar um hvernig við útfærum þessi ákvæði. Þetta verður vafalaust rætt því að þetta hefur verið umdeilt á liðnum árum. Það má segja um þetta mál að ég hef nokkrum sinnum skipt um skoðun á því, þ.e. hversu langt eigi að ganga fram í vernd barna fyrir efni. Ég var þeirrar skoðunar að þetta ætti að hafa sem frjálsast. Ég hef að sumu leyti skipt um skoðun eftir því sem ég hef lesið mér meira til um málið. Markaðssetning sem er beint að börnum er oft og tíðum mjög markviss og mér fannst áhugaverð sú breska rannsókn sem ég las þar sem fram kom að börn sem ekki höfðu náð 18 mánaða aldri þekktu þó McDonalds-merkið sem segir auðvitað sitt um það að sú markaðssetning ber ákveðinn árangur. — Nú er hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir að ganga í salinn. Ég veit að hún mun líta á ræðu mína á netinu því að þar er nokkur svör að finna við þeim spurningum sem hún varpaði fram í sinni ágætu ræðu áðan.

Hvað varðar athugasemd sem hv. þm. Róbert Marshall setti fram við 36. gr. þá tel ég að þetta skipti máli að skoða mjög nákvæmlega í menntamálanefnd því að þarna er kannski verið að þrengja að sjálfstæði ritstjórna að einhverju leyti með því að búa til þennan málskotsrétt til Fjölmiðlastofu. Þetta þarf að sjálfsögðu að ræða, ekki minnst við hagsmunasamtök blaðamanna. Síðan langar mig að nefna atriði sem ég hafði því miður ekki tíma til að koma fram með í fyrstu ræðu minni en það tengist íslenskri málstefnu sem hér var samþykkt síðasta vetur, lögð fram af þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, og samþykkt í apríl, ef ég man rétt, og það skiptir miklu máli að hv. menntamálanefnd muni rýna frumvarpið frá henni. Nú liggja fyrir ákveðnar tillögur um hvernig best verði komið fyrir að tryggja stefnuna í íslenskum fjölmiðlum. Frumvarpið var komið fram áður en þær tillögur lágu fyrir þannig að ég mun óska eftir því við hv. menntamálanefnd að hún taki það til sérstakrar skoðunar í meðförum sínum um málið.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi líka markmiðsgreinarnar og hvort skilgreina ætti betur ábyrgð fjölmiðla í þeim. Það er nokkuð sem við þurfum að velta fyrir okkur líka. Nú liggur fyrir að fjölmiðlar munu koma við sögu í þeirri skýrslu sem hefur verið boðuð af hálfu Rannsóknarnefndar Alþingis, hvernig fjölmiðlar hafi staðið sig. Kannski er ástæða til þess að líta til þeirrar skýrslu líka þegar þetta verður skoðað og hvort ástæða sé til að skilgreina að einhverju leyti betur ábyrgð fjölmiðla. Við gerum auðvitað ákveðnar kröfur á fjölmiðla. Það er almenningur sem veitir fjölmiðlum kannski mest aðhald með því að gera kröfur á hvaða ábyrgð þeir eiga að bera. Ég veit hreinlega ekki, ég segi það hér, hvort ástæða er til að breyta þessu og setja þetta inn í lög en það er a.m.k. eitthvað sem mér finnst mikilvægt að ræða, ekki síst af því að þetta á sjálfsagt eftir að koma upp í tengslum við þessa umræddu skýrslu.

Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spurði hvort það væri pressa á þinginu að ljúka málinu. Mitt svar við því er að þetta er ítarlegt frumvarp sem þarf mikla umræðu og ég er ekki með hjartað í buxunum yfir því hvað hv. menntamálanefnd mun taka sér langan tíma í það. Við höfum tíma upp á að hlaupa á haustþingi. Ég lít svo á að hv. menntamálanefnd þurfi að taka sér þann tíma sem hún þarf. Ég veit líka að það eru ekki mörg frumvörp frá menntamálaráðherra þar inni núna þar sem mér skilst að nefndin hafi afgreitt nokkur út. Ég vona því að hún hafi góðan tíma til að ljúka þessu en það verður bara að taka þann tíma sem það þarf.