138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til að fyrirbyggja misskilning sagði ég ekki að ég hefði boðað þá sérstaklega til þess að koma og ræða fjárhagsstöðuna, en þeir hafa komið á fund ráðherra og gert grein fyrir fjárhagsstöðunni og erfiðri stöðu fyrirtækja, bæði Landssamband smábátaeigenda og Landssambands íslenskra útvegsmanna, þannig að það hefur verið rætt.

Hitt er alveg rétt líka að í haust kallaði ég á fund stjórnendur viðskiptabankanna, núverandi Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka, til að ræða hvernig þeir mætu stöðuna gagnvart fyrirtækjum, ekki bara í sjávarútvegi heldur reyndar líka í landbúnaði, þar sem þeir gerðu grein fyrir því hvaða aðgerðir þeir væru með og hvaða plan þeir hefðu sett upp varðandi þessa aðila. Ég kallaði þá svo aftur á minn fund á dögunum þar sem aftur var farið yfir þessi atriði og þá sérstaklega líka varðandi landbúnaðinn. Það er líka mjög mikilvægt að þeir erfiðleikar sem eru í efnahagslífi þjóðarinnar núna verði ekki til að breyta grunngerð í íslenskum landbúnaði og að tilfærslur á framleiðsluréttindum frá búum og einstaka byggðarlögum verði ekki í kjölfar þess sem hér er verið að gera. Okkur ber skylda til að standa vörð um þetta.

Ég vona að ekki þurfi að grípa til þeirra heimildarákvæða sem hér er verið að fara fram á. Ég vona það, enda hafa bæði bankar og fjármálastofnanir sagt að þær hafi fullan skilning á þessu máli, en mér þykir samt rétt að þarna sé heimild bæði til að krefjast upplýsingaskyldu eða upplýsingagjafar frá viðkomandi fjármálastofnunum um hvað sé að gerast í þessum efnum og einnig ef brýna nauðsyn ber til að geta gripið inn í með einum eða öðrum hætti.