138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum núna er tilbrigði við mjög kunnuglegt stef í frumvörpum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er frumvarp sem felur fyrst og fremst í sér beiðni um að Alþingi færi hæstv. ráðherra gríðarlega mikið vald til að fara með einstök málefnasvið, annars vegar það sem snýr að byggðakvótanum og hins vegar það sem snýr að þeirri stöðu sem upp kann að koma ef erfiðleikar verða þess valdandi að fyrirtæki í einstökum sjávarbyggðum verða gjaldþrota eða komast í mikla erfiðleika.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að hæstv. ráðherra sinni þeim málum sem hér er verið að takast á við en ég tel hins vegar að það sé algerlega röng aðferð við þessa lagasetningu að hæstv. ráðherra fái svona mikið almennt óskilgreint vald til að takast á við þessa hluti. Þetta er hins vegar mjög í samræmi við það sem hefur komið fram í öðrum frumvörpum hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra hefur t.d. nánast ótakmarkað vald til að ákveða hver geymslurétturinn eigi að vera á aflaheimildum milli ára. Hæstv. ráðherra hefur fengið opna heimild til að stýra vinnslu á uppsjávarfiski og hæstv. ráðherra hefur líka farið fram á það við Alþingi að fá sérstaka heimild með mjög óskilgreindum hætti til að ráðskast með aflaheimildir í skötusel. Nú er verið að bæta við tveimur nýjum atriðum sem ég hef þegar nefnt aðeins lauslega.

Ef ég vík fyrst að þeirri heimild sem hæstv. ráðherra fær hérna eða óskar eftir að fá um að setja sérstakar takmarkanir fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum byggðarlögum, er það að mínu mati vel hugsanlegt að setja þurfi einhverjar frekari skorður varðandi úthlutun á byggðakvóta, en þá er auðvitað eðlilegt að kveðið sé skýrt á um það í lögunum sjálfum að það sé ekki undir geðþóttavaldi ráðherra komið hverju sinni hvernig hann fer með það vald. Það er nefnt í athugasemdum við lagafrumvarpið að hér sé m.a. verið að vísa til þess að ráðherra geti ákveðið að úthluta ekki aflaheimildum til skipa sem hafa leigt frá sér meiri kvóta en þau hafa flutt til sín á yfirstandandi fiskveiðiári eða tilteknu fiskveiðiári. Þetta er alveg hugsun sem má hugsa í sambandi við byggðakvótann, en er þá ekki eðlilegt, virðulegi forseti og hæstv. ráðherra, að þessi heimild sé eingöngu niðurnegld með þessum hætti í lögunum sjálfum að það sé ekki opnuð heimild til að ráðherra geti, ef hann telur að það sé tilefni til, búið til einhverjar takmarkanir sem eru síðan ekkert útskýrðar í lagatextanum sjálfum? Þetta er auðvitað ekkert lag á lagasetningu að vinna með þessum hætti. Þróunin var sú að reyna að takmarka þessar opnu heimildir til ráðherra í lagasetningu frá Alþingi, en hæstv. ráðherra hefur verið að brjóta í blað, hann hefur sveigt af leið, hann hefur reynt að fá Alþingi til að breyta þessari reglu, þessari aðferð sem við höfðum beitt að hafa lagaheimildirnar skýrar og afmarkaðar en ekki þannig að hann geti farið með þær að vild.

Þetta er auðvitað minna mál sem snýr að sjálfum byggðakvótanum, getum við sagt. Hitt málið er auðvitað stærra sem er í 2. gr. frumvarpsins og er bráðabirgðaákvæði sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir, sem að mínu mati er í sjálfu sér mál sem þarf að ræða mjög ítarlega. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á, þetta er auðvitað gríðarlega mikið vandamál sem við kunnum að standa frammi fyrir. Við þekkjum það úr liðinni reynslu að upp getur komið mjög alvarleg staða í litlum byggðarlögum og jafnvel hinum stærri þegar það gerist af einhverjum ástæðum að aflaréttur hverfur úr byggðinni og það er vandamál sem við höfum verið að reyna að takast á við í gegnum tíðina með margvíslegum hætti. Sem betur fer virðist vera komið meira jafnvægi á þetta mál en áður. Við sjáum það t.d. í svari við spurningu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem hæstv. ráðherra veitti fyrir fáeinum vikum að tilflutningar milli byggðarlaga hafa verið miklu minni á síðasta áratug en þeir voru t.d. á áratugnum á undan. Það er út af fyrir sig mjög jákvætt. En vandinn er hins vegar sú nálgun sem fram kemur í þessu frumvarpi og ég óttast að geti haft í för með sér alls konar vandamál, sem eru ófyrirsjáanleg og sum þó fyrirsjáanleg, og er ástæða til að vekja athygli á.

Þetta ákvæði frumvarpsins vekur í raun og veru upp fleiri spurningar en það svarar og það er auðvitað galli. Þegar frumvarp er lagt fram sem á auðvitað að skýra stefnu hæstv. ráðherra er ekki gott að frumvarpið sé þannig úr garði gert að það veki fleiri spurningar en það svarar. Í raun og veru er nálgun hæstv. ráðherra í frumvarpinu með þeim hætti að það er verið að segja A, það er verið að segja: Við viljum koma í veg fyrir að aflaheimildir hverfi úr byggðarlagi þar sem vandi verður uppi í rekstri einhvers tiltekins fyrirtækis eða fyrirtækja sem hafa yfir að ráða tiltölulega miklum aflahlutdeildum í viðkomandi byggðarlagi. En það er hins vegar ekki sagt með hvaða hætti eigi síðan að bregðast við. Það er alveg ljóst mál í þessu frumvarpi að menn hafa ekki treyst sér til að klára þessa hugsun til enda. Menn hafa uppi þessa ákveðnu sýn sem er augljós að þarna geta verið uppi vandamál sem þarf að takast á við en svarið er síðan mjög óljóst. Í fyrsta lagi eru allar skilgreiningar mjög óljósar. Talað er um veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Þetta er ekkert tilgreint. Það er ekki reynt að leggja mat á hvað þetta þýðir nákvæmlega. Það er að vísu talað um 20% af aflahlutdeild viðkomandi byggðarlags en það er hins vegar augljóst mál að hér er ekki verið að vísa til stórra byggðarlaga þar sem atvinnustarfsemi er fjölþættari og sjávarútvegurinn skiptir ekki jafnmiklu máli og í ýmsum öðrum byggðarlögum. Með öðrum orðum, þetta ákvæði mundi væntanlega ekki eiga við ef sú staða kæmi upp til að mynda að mynda í Reykjavík að 20% aflaheimilda væru einhverju í uppnámi, þá mundi hæstv. ráðherra ekki líta þannig á væntanlega að hann hefði heimildir til að grípa þar inn í. Hann væri væntanlega að horfa til minni sjávarútvegsbyggðanna utan höfuðborgarsvæðisins. Það er auðvitað nauðsynlegt að þetta mál sé skýrt. Við höfum reynt að skilgreina það t.d. þegar við höfum verið að ræða um byggðakvótann. Þar er annars vegar um að ræða nokkuð almennt orðalag sem lýtur að því hvaða byggðarlög hafi heimildir til að fá byggðakvóta og síðan hefur það verið skilgreint frekar. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði að ósekju mátt horfa til þeirrar fyrirmyndar þegar hann var að velta fyrir sér þessu frumvarpi, þannig að það lægi þá skýrt fyrir a.m.k. hvers konar byggðarlög við værum að tala um. En þetta eru eins og annað í frumvörpum hæstv. ráðherra, galopnar heimildir þar sem þess er gætt að hafa allar skilgreiningar sem víðastar, þannig að menn geti þá farið með vald sitt með opnari og takmarkalausari hætti en ella væri gert.

Mér finnst nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hér tali menn mjög skýrt. Við erum að tala um hvernig bregðast eigi við þegar erfiðleikar steðja að í atvinnugrein, hvernig menn ætla að bregðast við, hvernig menn ætla að ráðstafa þeim réttindum og þeim eignum sem fylgja viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækjum. Hafa menn ekki tekið eftir allri þeirri umræðu sem hefur farið fram í þjóðfélaginu upp á síðkastið, gagnrýnu umræðu um það hvernig menn hafi verið að ráðskast með eignir, til að mynda þeim sem bankarnir hafa fengið í sínar hendur? Er ekki nauðsynlegt að reyna að læra af þessu, líka þegar kemur að sjávarútveginum þannig að það sé ekki endalaus tortryggni uppi? Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að menn hljóti að reyna að draga einhvern lærdóm af allri þeirri umræðu sem hefur farið fram um ráðstöfun eigna fyrirtækja sem lenda í vandræðum sem hefur tröllriðið umræðunni upp á síðkastið. Þess vegna gengur ekki að þessi heimild sé svona óútskýrð og galopin eins og hér er gert ráð fyrir.

Það er ekki kveðið á um það, hvorki í frumvarpstextanum sjálfum né í athugasemdakafla þess, að hugmyndin sé að setja upp einhvers konar verklagsreglur sem menn hafa þó verið að kalla eftir dögum saman, vikum saman, mánuðum saman að setja eigi upp varðandi ráðstöfun eigna fyrirtækja sem bankar véla með. Það hefði þó verið augljóst mál að svo ætti að gera. Í öðru lagi, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði áðan, hvað gerist svo eftir að þessi tilkynning hefur verið send frá hæstv. ráðherra, tilkynning til aðstoðarmanns skuldara við greiðslustöðvun eða skiptastjóra í þrotabúi? Hvað gerist þá? Hver er það sem í raun og veru á að taka við?

Tökum dæmi. Útgerð lendir í vandræðum og vandræðin leiða til þess að fyrirtækið er í uppnámi með sínar aflaheimildir og hæstv. ráðherra sendir út tilkynningu. Hvað gerist þá? Hver tekur þá við umráðarétti yfir þeim aflaheimildum? Er það bankinn? Er það skiptastjórinn? Er það sveitarfélagið eða hver er það sem þarna á að taka við völdum? Ég geri ráð fyrir að bak við þessa hugsun sé það að menn ímyndi sér að þar með verði hægt að hafa áhrif á það að hægt sé að selja þessar aflaheimildir og atvinnufyrirtækið innan viðkomandi byggðarlags og það er það sem væntanlega er verið að reyna að stefna að. Við þekkjum það svo sem að slíkt hefur oft verið reynt að gera þegar svona aðstæður hafa komið upp. Menn hafa sagt sem svo: Við skulum reyna að hafa áhrif á að það verði heimamenn sem eignist þessi fyrirtæki. Því miður er reynslan sú að menn hafa mjög oft og endalaust fundið upp leiðir til að fara fram hjá þessu, menn hafa stofnað skúffufyrirtæki í viðkomandi byggðarlögum. Það er ekkert sem kæmi í veg fyrir það í svona tilvikum að stofna svona skúffufyrirtæki, láta þau kaupa viðkomandi aflaheimildir, viðkomandi skip og viðkomandi fyrirtæki. Síðan yrðu þessi skúffufyrirtæki sameinuð öðrum fyrirtækjum utan byggðarlagsins og aflaheimildirnar hverfa úr byggðarlaginu. Ég sé ekki að tekið sé á því í þessu frumvarpi að koma í veg fyrir slíkt.

Síðan er auðvitað hitt sem við veltum þá fyrir okkur og það er þetta: Hver verða áhrifin t.d. á verðmæti fyrirtækja í byggðarlögum þar sem svona háttar til? Þá er ég ekki endilega að tala um þau fyrirtæki sem lenda í þessum vandræðum heldur kannski þau fyrirtæki sem stæðu eftir með 80% aflahlutdeildanna, ef við gæfum okkur að vandræðin væru í fyrirtæki með 20% aflahlutdeilda, því að það er til þess sem er vísað í þessu frumvarpi. Og er þá ekki hættan sú að við þessar aðstæður yrði litið þannig á að aflaheimildir í þessum byggðum kynnu að lækka í verði vegna þess að markaðurinn fyrir þessar aflahlutdeildir í byggðum þar sem kveðið er svo skýrt á um að þær megi eingöngu selja innan byggðarlagsins, að verðmæti aflahlutdeilda í þessum byggðum kynni að verða lægra en í byggðum sem ekki stæðu frammi fyrir þessum vanda? Þá óttast maður auðvitað þegar sú staða væri komin upp, sem er að mínu mati býsna fyrirsjáanleg, að bankastofnanir, lánastofnanir sem hafa veð í fyrirtækjum sem gera út frá slíkum stöðum, yrðu órólegar og kynnu að fara að herja á þau fyrirtæki sem eftir stæðu um frekari tryggingar, um frekari greiðslur, um afnám frystingar og greiðslufresti og þess háttar. Þetta eru allt saman hlutir sem við verðum að velta fyrir okkur. Ef sú staða kemur upp vegna þessa frumvarps að það verði til mismunur á verðmæti fyrirtækja eftir því í hvaða byggðarlagi þau starfa er auðvitað komin upp alvarleg staða. Vel rekið fyrirtæki í byggðarlagi þar sem svo háttar til að annað fyrirtæki hefur lent í vandræðum og það fyrirtæki er með meira en 20% aflahlutdeilda, ef það verður síðan til þess að fyrirtæki sem er í góðri stöðu lendir í krappari stöðu vegna afleiðinga af þessu frumvarpi sem er auðvitað alls ekki ætlunin að gerist. Þetta verður maður auðvitað að skoða mjög rækilega.

Það er ýmislegt annað út af fyrir sig sem mætti segja um þetta mál. Hæstv. ráðherra segir í greinargerð með frumvarpinu, í athugasemdum við það, að ráðuneytinu hafi borist upplýsingar um að ýmis fyrirtæki séu þegar í miklum greiðsluvanda og það séu líkur á að það muni valda röskun og tilflutningi aflaheimilda á milli byggðarlaga ef ekkert verði að gert. Hér finnst mér að hæstv. ráðherra verði líka að svara skýrt: Hvaða upplýsingar eru það, hvaða stærðargráðu af þessum vanda erum við að ræða um? Getur hæstv. ráðherra greint okkur frá því hvað hér kann að vera í húfi? Ég ætla ekki að gera lítið úr vandanum og geri það ekki. Ég er einfaldlega að segja að við verðum að fá þessa heildarmynd ljósa fyrir okkur og hæstv. ráðherra verður að vísa til þess hvað hér er átt við í athugasemdakafla frumvarpsins.

Í öðru lagi er þetta mál náttúrlega af þeim toga að hæstv. ráðherra hlýtur að hafa rætt þetta við ekki bara útgerðirnar, smáar og stórar. Það kom að vísu fram í andsvörum áðan að þær viðræður virðast ekki hafa snúist mikið um þetta frumvarp, hæstv. ráðherra vísaði til funda sem haldnir hefðu verið almennt um sjávarútvegsmál með Landssambandi smábátaeigenda og LÍÚ. Ég vildi þess vegna inna hæstv. ráðherra eftir því hvort við samningu frumvarpsins hefði verið haft samráð í fyrsta lagi við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, í öðru lagi við sveitarfélög og í þriðja lagi við lánastofnanir. Hafa þessir aðilar sem hafa þarna mikilla hagsmuna að gæta haft aðstöðu til að ræða efni frumvarpsins? Ég er ekki að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt frumvarpið fyrir þeim heldur hvort hæstv. ráðherra hafi rætt þessar hugmyndir við þessa aðila sem hljóta að hafa dálítið mikið um það að segja, hafa a.m.k. skoðun á því og þekkingu á því hverjar þeir telji að geti orðið afleiðingar af frumvarpinu eins og það er lagt fram.

Hæstv. ráðherra nefndi það líka áðan að nú væri starfandi sérstök nefnd, ég hygg fjögurra ráðuneyta, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, sem væri að fara yfir mjög sambærileg mál og kveðið er á um í þessu frumvarpi. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvað vakir fyrir honum með skipun þessarar nefndar. Hefur hann í hyggju að koma með frekari frumvörp til lagasetninga sem lúta að þessu máli? Er þetta hugsað sem eitthvert fyrsta skref í lengra ferli eða lengri hugsun eða hvað er það sem hæstv. ráðherra er að boða?

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vildi eingöngu segja eitt og súmmera þá kannski afstöðu mína upp með þessum hætti. Ég tel eðlilegt og nauðsynlegt að menn takist á við þann vanda sem reynt er að glíma við í 2. gr. þessa frumvarps en ég hef hins vegar áhyggjur af því að hér hafi hæstv. ráðherra verið nokkuð mislagðar hendur og að afleiðingarnar af því sem verið er að gera í frumvarpinu kunni að verða allt aðrar en ætlast var til og hæstv. ráðherra er í raun og veru að boða (Forseti hringir.) og það kunni að valda ýmsum vandræðum sem ella hefðu ekki orðið til í þeim byggðarlögum sem hér er um að ræða.