138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra kemur með í halarófu, liggur mér við að segja, inn í þingið þrátt fyrir að vita að hv. þingmenn eru ekki ánægðir með þau vinnubrögð.

Þegar ég fór fyrst í gegnum frumvarpið sýndist mér að býsna falleg hugsun væri á bak við það og má vel vera að svo sé. En þegar farið er að rýna ofan í greinarnar og textann læðist að manni óþægilegur grunur um að verið sé að lögfesta geðþóttavald til ráðherra og einhvers konar alræðisvald yfir ákveðnum hlutum í fiskveiðistjórnarkerfinu. Textinn er enda allur í þá veru, herra forseti, hann er mjög óljós og óljóst hvert verið er að stefna.

Annars vegar er rætt um byggðakvóta og hins vegar ráðstafanir vegna mögulegra fjárhagsvandamála. Fyrsta grein, liður a, endar með orðunum: „Ef talið verður að tilefni sé til þess“. Þegar farið er í skýringar eða menn velta fyrir sér í frumvarpinu hvaða tilefni þetta kunni að vera þá er það afar óljóst og ljóst að verið er að treysta á það að hæstv. ráðherra, hver sem það kann að vera á þeim tímapunkti sem þarf að beita þessu, leggi í raun mat á þetta sjálfur.

Í b-lið er síðan talað um að flytja aflamark milli fiskveiða. Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir. Ekki þar fyrir að ég tek undir að það geti verið skynsamlegt að heimila slíkt. En að það skuli koma frá ráðherra sem hefur talað mjög hart gegn því að hægt sé að flytja heimildir með þessum hætti er reyndar mjög sérstakt, það verð ég að segja alveg eins og er.

Þegar við horfum á 2. gr. frumvarpsins er verið að leggja einhvers konar tilfinningalegt mat á það hvenær til vandræða horfir í sjávarplássunum. Til að bíta höfuðið af skömminni er ekki orð um það í lagagreininni sjálfri hvort ráðherra þurfi að leita sér álits einhverra aðila heldur er eingöngu kveðið á um það í skýringum að það þyki rétt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti leiti til Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarfélags. Þarna er í rauninni verið að undirstrika að það er ráðherra algerlega í sjálfsvald sett hvort hann leiti þessa álits eða ekki og hvernig hann fer þá með það.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði þeirrar spurningar áðan hvað gerist ef enginn getur keypt, þ.e. ef ekkert fyrirtæki getur keypt í því byggðarlagi þar sem þetta kann að koma upp. Það kann að vera að hæstv. ráðherra hafi svarað því en það fór þá fram hjá mér. Mig langar því að heyra það aftur frá ráðherra hér á eftir hvort hann hafi hugsað þetta til enda því að þetta skiptir miklu máli.

Það er svolítið sérstakt, herra forseti, að horfa til þess að lagafrumvörpin sem nú koma frá hæstv. ráðherra bera þann keim að verið er að færa vald til ráðherrans, það er verið að auka miðstýringu í ráðuneytinu og í sjávarútveginum. Það er mjög slæmt þegar það er gert því að skýr lagatexti hlýtur alltaf að vera betri þegar færa þarf fram með rökum hvers vegna gripið er til ákveðinna aðgerða og hvers vegna ekki er gripið til ákveðinna aðgerða. Það er því mjög sérkennilegt á þessum tímum, þegar við erum með samfélag þar sem mikil óvissa ríkir og ekki er mikið traust á stjórnvöldum, að verið sé að auka á slíka þætti með því að koma með frumvörp sem þetta er. Það er verið að taka vald úr lagatextanum yfir til ráðherrans. Það er mjög sérstakt, herra forseti, að unnið sé með slíkum hætti.

Það mátti heyra eða lesa af orðum hæstv. ráðherra, og eins kom það fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að frumvarp þetta vekur upp fleiri spurningar en svör. Það er einfaldlega vegna þess að ráðherrann kemur hingað inn með mörg álitaefni í frumvarpinu og þau eru óskilgreind í raun, þessi álitaefni. Við hljótum því að spyrja okkur um það hvers vegna farið er fram með þessum hætti. Treystir hæstv. ráðherra á það að frumvarpið verði tekið fyrir í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og farið ofan í hverja einustu setningu í því og það lagað þannig að það sé bjóðandi þingheimi og því samfélagi sem við lifum í dag. Það er ekki, hæstv. ráðherra, verið að kalla eftir því að auka vald ráðherra í dag eða að þeir geti stjórnað með geðþótta sínum. Þó að hugsunin á bak við frumvarpið sé góð, og hugsunin sé eflaust sú að tryggja byggð í landinu og vernda sjávarplássin, þá þarf að gera það með skýrum hætti. Það gengur ekki að skilja eftir fleiri spurningar en svör og það er því miður það sem mér sýnist að verið sé að gera í frumvarpinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra núna. Nú fer frumvarpið væntanlega til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég verð að vona að sú nefnd fái nægan tíma til að fara yfir frumvarpið og að hlustað verði eftir gagnrýnisröddum. Ég verð að vona að ekki verði beitt þeim aðferðum sem hæstv. ráðherra hefur beitt varðandi hið svokallaða skötuselsfrumvarp, svo að eitthvað sé nefnt, þar sem nánast er verið að þvinga málið í gegnum þingið, mér liggur við að segja hreinlega með skóhorni ef má orða það þannig.

Herra forseti. Það er ekki gott þegar framkvæmdarvaldið vinnur með þessum hætti. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka upp breytt vinnubrögð.