138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

þátttaka ráðherra í umræðu.

[17:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á því að ævinlega þegar hæstv. ráðherra mælir fyrir frumvörpum sínum hunsar hann algjörlega þær spurningar sem fyrir hann eru lagðar. Það er ekki bara óþolandi, það er virðingarleysi. Ekki bara virðingarleysi við þá þingmenn sem bera upp þessar spurningar, það er virðingarleysi við Alþingi að hæstv. ráðherra líti þannig á að hann geti hent hér inn frumvörpum, lesið textastíla úr ráðuneytum sínum og síðan hlustað á umræðurnar án þess að bregðast með nokkrum hætti við þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það gerist hér æ ofan í æ að hæstv. ráðherra reynir að koma sér undan þessari umræðu sem hann á þó samkvæmt þingskapalögum að taka þátt í.

Þetta mál á síðan að fara til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þá þurfa að liggja fyrir svör við brýnum spurningum sem hæstv. ráðherra einn getur svarað. Hæstv. ráðherra, svona þingreyndur maður, á ekki að sýna Alþingi þetta virðingarleysi sem hann gerir hér æ ofan í æ. Það er ekki nóg með að hann komi með frumvörp (Forseti hringir.) sem fela það í sér að hann taki sér alræðisvald í einstökum atvinnugreinum, heldur hirðir hann ekki um að svara eðlilega (Forseti hringir.) málefnalegum spurningum sem fyrir hann eru lagðar.