138. löggjafarþing — 89. fundur,  9. mars 2010.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

450. mál
[17:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög sérkennilegt að heyra stjórnarþingmenn koma upp og halda þeirri síbylju að almenningi og okkur í þinginu að það sé allt Icesave að kenna sem ekkert gerist á Íslandi. Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að það er margbúið að sýna fram á og upplýsa að það er ekki málið. Málið er að sjálfsögðu það sem kom fram í örstuttri ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan, það er ríkisstjórnin. Það er einfaldlega þannig. Aðgerðaleysi hennar er æpandi og hrópandi og hún getur ekki lengur skýlt sér á bak við þetta eina ljóta orð, Icesave. Það bara gengur ekki.

Hér er búið að segja frá því æ ofan í æ að hundruð milljóna eru í íslenskum bönkum sem bíða þess að vera nýtt til að endurreisa samfélagið en það er ekki gert því að menn hafa ekki trú á framtíðinni með þessa ríkisstjórn við völd.