138. löggjafarþing — 90. fundur,  9. mars 2010.

brottfall laga nr. 16/1938.

436. mál
[18:04]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá framsögu sem hún flutti hér með frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, eins og það heitir.

Eins og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið skipaði í febrúar árið 2007 Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, nú forsætisráðherra, nefnd til að kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á ríki sem fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk sem var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007.

Ég fagna því að í þeirri leit hafi þessi lög komið fram. Það ætti að vera okkur áminning um að það þarf oft að fara yfir lagabálkana eins og þessi lög sem hafa legið þarna og eru eðlilega orðin úrelt. Allt annar hugsunarháttur gildir í dag en gilti á árinu 1938. Ég tel að það þurfi í miklu fleiri tilfellum að fara algjörlega markvisst í gegnum lögin okkar með tilliti til lagahreinsana. Það væri óskandi að það gengi vel að fara í gegnum lagabálka allra ráðuneyta með tilliti til þess að skoða hvort þar sé eitthvað sem brýtur í bága við réttindi fólks með fötlun og að við náum þá að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Því fagna ég því að fá þetta frumvarp til heilbrigðisnefndar og tel að hún þurfi ekki mjög langan tíma til þess að afgreiða frumvarpið.