138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fundur utanríkisráðherra Norðurlanda.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju með þá viðhorfsbreytingu sem ég tel að hafi átt sér stað hjá Norðmönnum vegna þess að þeir hafa ekki talað svona skýrt fram til þessa. En að sama skapi hlýtur það að valda okkur öllum vonbrigðum að hin Norðurlöndin skuli ekki taka af skarið. Það var athyglisvert á sínum tíma að svo virtist t.d. að á sænska þinginu hefðu menn áhyggjur af því að lánafyrirgreiðsla til okkar yrði notuð til að greiða upp Icesave-lánin, sem er auðvitað reginmisskilningur. En ég held að það gæti farið vel á því að Norðurlöndunum yrði sent það tilboð sem við gerðum Bretum og Hollendingum vegna þess að staðreynd málsins er sú að við höfum fyrir löngu síðan boðið sanngjarnar lyktir Icesave-deilunnar. Við höfum boðist til að veita ríkisábyrgð fyrir þessari lágmarkstryggingu og Bretar og Hollendingar fara fram á hluti við okkur sem ganga svo langt fram úr því sem sanngjarnt er og eðlilegt að krefjast af okkur. Ef við kynnum þetta vel fyrir Norðurlöndunum hljóta augu þingmanna þar að opnast. Augu frændþjóða okkar hljóta að opnast fyrir því (Forseti hringir.) að það er ómálefnalegt og óskynsamlegt að tengja þessi mál saman. Það er líka óréttlátt og veldur íslenskum borgurum (Forseti hringir.) vanda og tjóni.