138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fundur utanríkisráðherra Norðurlanda.

[15:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það gerist æ oftar á þessum síðustu og bestu dögum að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég er honum sammála um það sem hann sagði áðan að það er ósanngjarnt og óréttlátt að gera þessa tengingu.

Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að ég hef áður rætt þessa hluti við forustumenn á Norðurlöndunum og það er mitt mat að það sé sterkari skilningur á okkar stöðu en áður. Auðvitað skiptir það okkur alveg gríðarlega miklu máli að frændur okkar Norðmenn tóku þetta skref. Það er alveg ljóst hvað þeir sögðu. Hins vegar dugar það okkur ekki að þeir einir hafi þessa afstöðu. Norðurlöndin öll þyrftu, ef til stykkisins kæmi, að hafa svipaða afstöðu.

Þá ítreka ég aftur það sem við vitum sem höfum skoðað þessi mál, líka hv. þingmenn í utanríkismálanefnd, að sumir þingtextanna sem samþykktir hafa verið á Norðurlöndunum eru þess eðlis að það þyrfti þá hugsanlega að breyta þeim. En við höfum fundið að við höfum vaxandi skilning einmitt innan þjóðþinganna (Forseti hringir.) og að því er varðar þekkingu þeirra á tilboðinu hefur þeim verið gerð grein fyrir þessu tilboði, ekki bara af stjórnarliðinu heldur líka af einstökum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.