138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fjölgun starfa og atvinnuuppbygging.

[15:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að standa vörð um að náttúruauðlindir verði áfram til í Þingeyjarsýslu og að þær nýtist til atvinnuuppbyggingar þar, enda er heilmikið atvinnuleysi á því svæði, rétt eins og á suðvesturhorni landsins.

Þess vegna langar mig í því samhengi að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort til sé einhver raunveruleg byggðastefna fyrir norðan Holtavörðuheiði og austan við Selfoss. Við fréttum af stórum, opinberum framkvæmdum sem eru í burðarliðnum, svo ágætar sem þær eru, byggingu á háskólasjúkrahúsi, menningarhúsi, Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi, og fleira mætti nefna. En það eru til fleiri svæði á landinu, líkt og á norðausturhorni landsins, á Austurlandi, þar sem kallað er á frekari uppbyggingu atvinnulífsins, (Gripið fram í.) þar sem verktakar eru sem hafa verið að fjárfesta á undangengnum árum í mjög dýrum atvinnutækjum og eru núna skuldum vafnir. Þess vegna er það mikilvægt að þessi ríkisstjórn taki sér nú tak og beiti sér fyrir því (Forseti hringir.) að atvinnuuppbygging verði líka á þeim svæðum. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Er einhver raunveruleg byggðaáætlun fyrir þessi landsvæði?