138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fjölgun starfa og atvinnuuppbygging.

[15:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að segja frá því að það hefur aldrei verið mótuð heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, aldrei. (Gripið fram í.) Að því er nú verið að vinna af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem er sóknaráætlun fyrir landið allt þar sem við ætlum að kanna styrkleika hvers svæðis fyrir sig. Þar horfum við til lengri tíma.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er gríðarlegt atvinnuleysi víða um land og byggðaþróunin sem átt hefur sér stað er áhyggjuefni, ekki síst á þeim hluta landsins sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Það er ekki vilji þessarar ríkisstjórnar að sjá Ísland sporðreisast og verða að borgríki. Þess vegna reynum við að vinna gegn því með þessu stóra verkefni sem við erum að vinna að í orkufrekum framkvæmdum fyrir norðan, tengt Þeistareykjum, Kröflu og Bjarnarflagi. Ég er nýbúin að undirrita síðasta nýja vaxtarsamninginn við Suðurnesin. Núna erum við búin að loka hringnum og erum að reyna að gera þessum svæðum enn hærra undir höfði þannig að vöxtur megi líka koma innan frá um land allt.

Í ferðaþjónustunni erum við að spýta í lófana um allt land (Forseti hringir.) þannig að við getum farið og ráðist í raunverulega mannvirkjagerð víða hjá okkar helstu náttúruperlum. Þar með talið er það svæði í sigtinu sem hv. þingmaður nefnir.