138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar.

[15:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins afgreiddi frá sér umsóknarbeiðni Íslands um aðild að Evrópusambandinu vakti það fyrst og fremst athygli fyrir þær kröfur sem þar komu fram til breytinga á ýmsu sem lýtur að starfsumhverfi stórra atvinnugreina eins og sjávarútvegs og landbúnaðar. Það hefur minna farið fyrir þeirri umræðu sem er hins vegar algjörlega óhjákvæmileg, að framkvæmdastjórnin gerði líka mjög miklar kröfur um breytingar á stofnanaumhverfi sem snúa að þessum atvinnugreinum og raunar miklu fleirum.

Í Morgunblaðinu núna á laugardaginn var viðtal við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem hann dró upp hrollvekjandi mynd af því sem við blasir ef landið gerist aðili að Evrópusambandinu. Hann vakti m.a. athygli á því að það þurfi að gera grundvallarbreytingar á stofnanaumhverfi landbúnaðarins sem feli í sér gífurlega fjölgun á starfsfólki og það muni líka stórauka álagið á starfsfólk ráðuneytisins. Hann talaði um að það þurfi að tvöfalda eða þrefalda þann fjölda sem vinnur í ráðuneytinu, kannski úr 35–40 manns upp í 100 manns.

Þetta eru auðvitað athyglisverðar upplýsingar og undirstrika það sem ég og mjög margir héldum fram þegar þessi mál voru til umræðu, að þær kostnaðartölur sem lágu til grundvallar mati okkar á kostnaði vegna Evrópusambandsaðildar væru mjög vanmetnar. Það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vekur athygli á í þessu viðtali er að þarna er verið að leggja af stað í kostnaðarsamt og tímafrekt ferli sem felur í sér grundvallarbreytingar án þess að þjóðarvilji sé skýr í þeim efnum. Nú vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra um hvort þetta sé ekki tilefni til að fara yfir þessi mál að nýju, átta sig á því hvaða breytingar er í raun og veru verið að kalla yfir okkur með svörum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þá er ég ekki að vísa til þeirra breytinga sem gerðar eru kröfur um, t.d. varðandi sjávarútveg og landbúnað almennt, heldur þær breytingar sem þetta felur í sér fyrir stofnanaumhverfi okkar, fyrir ráðuneytin og fyrir þau umsvif (Forseti hringir.) sem þurfa að eiga sér stað á þessum vettvangi til að mæta þeim miklu kröfum sem það felur í sér að verða aðili að Evrópusambandinu.