138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur nú að svolítið tómum kofanum hjá mér, ég er ekki sérfróður í hinum refsiréttarlega hluta þessa máls eða lagalega í þeim skilningi. Dómsmálaráðherra er hugsanlega betur stödd til að svara fyrir það. Ég hygg að það fari væntanlega eftir eðli máls, af hvaða ástæðum vanskilin liggja fyrir þegar bú er tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi menn beinlínis haldið undan staðgreiðsluskilum þannig að það varði við hegningarlög, samanber ákvæði þar um, hverfur sá þáttur málsins augljóslega ekki þótt kröfuröðin í búinu breytist að þessu leyti og hagsmunir ríkisins séu tryggðir betur hvað það varðar. En það er að sjálfsögðu einnig mögulegt að óvæntar aðstæður valdi því að vangoldin gjöld af þessu tagi liggi fyrir þegar bú er tekið til skipta. Það þarf ekki endilega að þýða, ímynda ég mér, að um neitt refsivert athæfi hafi verið að ræða áður. Í hvoru tilvikinu fyrir sig er þetta því liður í því að tryggja betur hagsmuni ríkisins varðandi það að fá þessi gjöld greidd.