138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um þetta mál en má til með að nefna að það sem ég gat um í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þá er þessi breyting óneitanlega til hagsbóta fyrir stjórnendur og stjórnir fyrirtækja þar sem hin svokölluðu rimlagjöld eða gjöld sem menn hafa innheimt fyrir hönd ríkissjóðs og eiga ekki, að þau fara í forgang í þrotabúið og þá eru meiri líkur og miklu meiri líkur á að það greiðist. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt vegna þess að laun, lífeyrisiðgjöld, félagsgjöld og sitthvað fleira, óinnheimt gjöld, eru í þessum sama forgangi og um er að ræða t.d. staðgreiðslu sem tekin hefur verið í tengslum við þessi laun. Það er því mjög eðlilegt að þetta hangi saman og fari hvort tveggja í forgang. Eins er með virðisaukaskatt sem menn hafa innheimt af fólki úti í bæ sem borgað er í vöruverði með virðisaukaskatti. Það er sama eðlis. Þetta eru gjöld sem fyrirtækið á ekki neitt, þannig að ég tel það mjög eðlilegt.

Hins vegar verðum við alltaf að líta til þess að þegar einn er að græða þá er yfirleitt alltaf — nei, það er reyndar ekki alveg rétt, en í þessu dæmi er það alltaf annar sem tapar þegar um er að ræða skatta til ríkissjóðs. Í atvinnulífinu er það þannig að þegar menn eiga samninga þá eru yfirleitt báðir að græða þannig að það er eðlilegt. En varðandi skatta, þegar einn fær meira úr þrotabúi er einhver annar sem fær minna og það er hinn almenni kröfuhafi og aðrir sem eru aftar í kröfuröð. Þetta kemur því niður á þeim. Ég hygg að þeir muni einhverjir vera óhressir með þessa breytingu. Hins vegar er um að ræða sanngirnismál, sem ég gat um áðan, fyrst laun og aðrar kröfur njóta forgangs.

Hæstv. fjármálaráðherra gaf okkur ljós í enda ganganna, nú á að fara að vinna saman. Menn hafa svo sem verið að vinna saman í ýmsum málum eins og t.d. Icesave og það er mjög ánægjulegt að menn séu að hverfa frá þessari einsmannsstefnu, eða hvað á að kalla það, um Icesave. Og ég er mjög glaður, frú forseti, að eiginlega sérhver dagur sem ekki er ríkisábyrgð á Icesave er góður dagur í mínum huga, virkilega góður dagur og þá hlusta ég ekki á þessar heimsendaspár um að frestunin kosti svo og svo mikið vegna þess að við erum að tala um gífurlega skuldbindingu og gífurlega vexti. Og það sem mest er um vert, frú forseti, óvissan er að breytast í vissu. Á hverjum einasta degi breytist smástykki af óvissu í vissu, t.d. það að gengi pundsins hefur fallið undanfarið sem er verulega gott fyrir Íslendinga, verulega ánægjulegt fyrir okkur, ekki Breta, það var ekki vitað en nú er það orðið vissa. Öfugt farið hefðum við orðið fyrir miklu tjóni.

Það er smáathugasemd, ég fór að kíkja í frumvarpið og mér sýnist að í 2. gr. eigi að standa, með leyfi frú forseta: Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr málsliður. Þar á það eðlilega heima en ekki eftir 1. mgr. Ég legg því til að hv. nefndi skoði það sérstaklega.