138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil, líkt og aðrir þingmenn, fagna því að þetta mál er komið fram. Hafi einhvern tíma verið þeir tímar hér á landi að við á þinginu þurfum að takast á við erfið verkefni, svo sem eins og skuldastöðu atvinnulífsins, þá er það á tímum sem þessum. Hér sýnist mér að góður vilji búi að baki þess efnis að koma til móts við fyrirtæki sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum með því að þau geti sótt um frest til greiðslu á vanskilum er tengjast gjöldum lögaðila.

Þessi vandi hefur verið að safnast upp á undangengnum vikum og mánuðum eða allt frá því að efnahagshrunið varð og gríðarlega erfið staða blasir við mörgum. Þegar við tölum um að nú viljum við fara að byrja upp á nýtt og byggja upp heilbrigt íslenskt atvinnulíf vil ég staldra þar aðeins við. Ef við horfum upp á þróun síðustu vikna og mánaða, bara ef við horfum á útboðin sem hafa farið fram í byggingariðnaði eða vegagerð, þá eru þar vægast sagt orðin fáránlega lág tilboð. Aðilar sem eru í heilbrigðum rekstri, hafa ástundað það að fara varlega í gegnum árin og skulda jafnvel ekki eins mikið og margir aðrir, eru að lenda í því að bjóða kannski 80–90% af kostnaðaráætlun og eru langt frá því að vera lægstbjóðendur í verkið. Hverjir eru það sem bjóða lægst, eru að bjóða jafnvel allt niður í 52–55% sem er rétt fyrir efniskostnaði? Það eru oft, og ég veit dæmi þess, fyrirtæki sem hafa fengið afskrifuð lán hjá bönkum sínum, eru skuldug en geta með því að fá verk með slíkum undirboðum sýnt fram á góða innkomu á næstu mánuðum, góða verkefnastöðu á meðan þeir sem haga sér með eðlilegum hætti og bjóða eðlilega í verkin fá ekki neitt. Hvað þýðir það fyrir þá verktaka? Það eru engin verkefni í gangi, mjög lítið fram undan og þar af leiðandi fá viðkomandi fyrirtæki minni fyrirgreiðslu hjá bönkunum í ljósi þess að þau geta ekki sýnt fram á mikil umsvif fram undan.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem ég sé reyndar að er ekki í salnum — en þetta er mjög umtalað hjá verktökum í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins — hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari þróun. Haldi þetta áfram, ef fram fer sem horfir, horfum við einfaldlega upp á þróun sem mun ganga af atvinnulífinu dauðu. Menn þurfa þá að halda áfram að afskrifa skuldir fyrirtækja. Fleiri fyrirtæki lenda í greiðsluþroti og þannig fáum við mun minni fjármuni inn í ríkissjóð til að standa undir öflugu velferðarkerfi og vestrænu samfélagi hér á landi.

Það eru margir sem hafa rætt við mig að undanförnu vegna þess að ég er með fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þess efnis hvort verið sé að fylgjast með þessari þróun hér á landi. En því miður, vegna þess að fyrirspurnadagar eru á miðvikudögum, er ekki hægt að fá þeirri fyrirspurn svarað næsta miðvikudag vegna þess að þá eru nefndadagar í þinginu þannig að það er í fyrsta lagi í næstu viku. Á meðan horfum við upp á ýmiss konar útboð sem fara fram þar sem tilboðin í þau eru einfaldlega svo lág að erfitt er að sjá hvernig fyrirtækin ætla að fá einhverja arðsemi út úr þeim.

Þetta er eiginlega sú spurning sem ég vil beina til hæstv. ráðherra, hvort hann telji það eðlilegt að ekki skuli vera neitt regluverk í kringum útboð af þessu tagi. Ég hef heyrt það, ég hef það reyndar ekki staðfest, að í Noregi eru öll tilboð sem eru undir 80% og yfir 115% af kostnaðaráætlun ekki tekin gild en slíkt er ekki í gangi hér á landi. Mér finnst það einfaldlega augljóst, miðað við þau tilboð sem við sjáum í dag á þessum markaði, að við getum ekki látið við svo búið standa. Menn eru greinilega að undirbjóða langt undir almennu kostnaðarverði. Ef slík þróun heldur áfram þurfa bankarnir einfaldlega að halda áfram að afskrifa og við erum þá komin í einhvern spíral sem við vitum ekki hvar endar. Á þessu þurfum við greinilega að taka, frú forseti.

Að öðru leyti vil ég segja að við framsóknarmenn styðjum anda þessa frumvarps sem hér liggur frammi sem kemur til móts við hluta af vanda skuldugs atvinnulífs. Við þurfum aftur á móti að halda áfram að gera enn frekari breytingar í þá átt að laga stöðu skuldugs atvinnulífs og skuldugra heimila og fyrirtækja. Mér fannst heldur billegt hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan, er hann kom í andsvar við mig, að hann reyndi að gera lítið úr þeim orðum mínum, sem ég nefndi þegar ég ræddi um vanda heimila og fyrirtækja, að réttast væri að leiðrétta allar skuldir frá því fyrir hrun. Ég veit ekki hvers lags skoðanaskipti þetta eru þegar við komum upp og reynum að tala fyrir því að koma til móts við vanda skuldugra heimila og fyrirtækja. Erum við ekki sammála um að sá vandi sé fyrir hendi? Jú, við erum alveg sammála um það. Og getum við þá ekki tekið höndum saman um að finna lausnir til að leiðrétta þessar skuldir? Þær hafa hækkað gríðarlega á undangengnum mánuðum og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra gerir sér grein fyrir því. Þær hafa hækkað svo mikið að mörg heimili standa einfaldlega ekki undir því og mörg fyrirtæki gera það ekki heldur.

Það var dálítið merkilegt í sumar þegar ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra út í bílalánin, þann gríðarlega vanda sem blasir við almenningi vegna hárra bílalána. Hæstv. ráðherra kom hér upp og sagði: Fólkið tók þessi lán, það er ekkert hægt að gera. Nú kemur hæstv. félagsmálaráðherra fram, sem ég fagna, og tekur undir með okkur í Framsóknarflokknum og stjórnarandstöðunni sem höfum talað fyrir því að fara þurfi í aðgerðir út af bílalánum, út af vanda heimila og fyrirtækja og kemur fram með lausn. Ég er ekki endilega viss um að ég sé sammála hæstv. ráðherra í einu og öllu en það hafa þó komið fram tillögur sem við ættum að geta farið í þvert á flokka — og nú sé ég að hæstv. fjármálaráðherra er enn eina ferðina farinn fram til að ræða við einhvern flokksfélaga sinn væntanlega til að reyna að stilla til friðar í þeim flokki þar sem allt er logandi í illdeilum, þ.e. í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

En við skulum fara að einbeita okkur að úrlausnarefninu sem er skuldavandi heimila og fyrirtækja í landinu. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til góðra verka í þeim efnum. Það mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að koma að þessu mikilvæga verkefni. En mig langar enn og aftur að ítreka þessa spurningu, og nú skal ég bara bíða meðan hv. þm. Þuríður Backman klárar að ræða við … (ÞBack: Hvaða geðvonska er þetta?) — Það er engin geðvonska hér. Hér er maður sem er í góðu skapi og fór réttum megin fram úr rúminu í morgun. En mér sýnist að hæstv. fjármálaráðherra sé ekkert mjög áhugasamur um að taka þátt í þessari umræðu og hvað þá að hlusta á þær spurningar sem maður leggur fram. Hæstv. ráðherra hefur í tvígang farið fram í hliðarsal meðan ég hef brosandi, og það er mjög erfitt að brosa undir þessu grafalvarlega umræðuefni, flutt mál mitt. En það er ágætt ef hv. þingmenn eru í góðu skapi í dag og við eigum að reyna að vera það flesta daga ársins. Ég held að flestir geti vottað það, og það ætti hæstv. ráðherra líka að geta, að sá sem hér stendur er yfirleitt í ágætu skapi.

En enn og aftur, áður en ég fer héðan úr ræðustólnum, vil ég ítreka þessa spurningu sem mér finnst grundvallarspurning núna þegar við erum að horfa á uppbyggingu atvinnulífsins: Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af þeim undirboðum sem nú tíðkast í útboðum, ekki bara á vegum hins opinbera heldur alls staðar í samfélaginu þar sem við sjáum fáránlega lágar upphæðir í ýmis verk sem valda því að mörg fyrirtæki sem eru vel rekstrarhæf og eru að reyna að standa undir starfsemi sinni, með mikið af mannskap í vinnu, eru að fara í þrot vegna verkefnaskorts á meðan hin sömu fyrirtæki halda áfram á fáránlega lágum dílum. Ég get ekki séð annað en bankarnir þurfi þá að halda áfram að afskrifa í miklum mæli skuldir þeirra fyrirtækja sem eru að bjóða svona óeðlilega lágt í verk. En þetta var hluti af þessari umræðu. Við erum að ræða um grundvallarvanda íslensks atvinnulífs og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra fylgist vel með því sem er í gangi þar. Þess vegna vænti ég þess að hann svari þessari spurningu. Hann þarf ekki að vera í neinni fýlu þó að við séum að ræða um erfið málefni. Ég treysti því að hæstv. ráðherra komi með góða skapið upp í ræðustól þingsins. Þjóðinni veitir ekki af því að sjá þennan mann brosa öðru hverju og vonandi mun hann blása okkur sem erum hér inni, og þeim sem á þetta hlusta, andann í brjóst. Ekki veitir af, við þurfum á öflugri ríkisstjórn að halda í dag, öflugum leiðtogum sem takast á við verkefnin en ýta þeim ekki á undan sér. Ég vonast til þess að frumvarpið sem hæstv. ráðherra er að leggja fram sé a.m.k. hænuskref í þá átt.