138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er athyglisverð, í orði kveðnu held ég að flestir hafi lýst sig frekar jákvæða gagnvart þessu frumvarpi þó að menn hafi haft á því fyrirvara og velt upp ýmsum flötum í tengslum við það sem er ekkert skrýtið. Þetta er að sjálfsögðu ekki aðgerð sem er æskilegt að þurfa að ráðast í. Hún hefur á sér ýmsar hliðar sem að sjálfsögðu má ræða um. En hv. þingmenn verða þá svolítið að gera upp við sig hvort þeir vilji reyna að grípa til aðgerða af þessu tagi. Er ekki meiri vandi leystur en sá sem kann að verða til með því? Það verður ekki bæði sleppt og haldið. (Gripið fram í.)

Hugsun þessa frumvarps er ósköp einföld. Hún er sú að reyna að aðstoða þau fyrirtæki sem eru að koma sínum málum í lag (TÞH: Er það …?) og undirgangast þær skyldur að greiða á gjalddögum og með réttum skilum á þessum tíma sem upp er settur en eiga gegn því möguleikann á að breyta eldri skattskuldum í uppgjör á þessu formi. Svo getum við auðvitað rætt um það hvort það sé of vel í lagt að hafa þetta vaxtalaust. Ég minni aftur á þær hlutfallstölur sem ég nefndi um áætlanir í ljósi reynslunnar, að hve miklu leyti þetta væri við venjulegar aðstæður tapað fé. Það er eftir heilmiklu að slægjast ef það vinnst hvort tveggja í senn, að þetta auðveldi fyrirtækjunum að endurskipuleggja fjármál sín og komast á réttan kjöl á nýjan leik og tryggi betri innheimtu ríkissjóðs þegar upp er staðið, a.m.k. af höfuðstól skuldanna sem þarna eru undir. Þetta eru óvenjulegir tímar. Við vitum að stór hluti íslensks atvinnulífs á í verulegum skuldavanda, kannski meira en endilega rekstrarvanda um þessar mundir. Það gildir a.m.k. ekki um margar útflutnings- og samkeppnisgreinar sem í sjálfu sér búa við ágætisafkomu sem slíka frá rekstri núna, en fjárhagurinn er bágur og það geta verið þungar byrðar frá fyrri tíð sem menn taka með sér inn í framtíðina. Hér er það sama undir og er í skuldaúrvinnslu bankanna og miklu máli skiptir, þ.e. að sem stærstur hluti hins lífvænlega atvinnulífs rekstrarfélaga sem eiga sér þó framtíð ef hann verður studdur í gegnum erfiðleikana. Þess vegna er þetta lagt til. Ef menn hafa þau sjónarmið uppi að þarna sé of langt gengið eða það séu annmarkar á þessari framkvæmd af þeirri stærðargráðu að menn vilji staldra við gerir Alþingi það sem því sýnist í þessum efnum.

Eftir vandaða yfirlegu í fjármálaráðuneytinu var niðurstaða okkar sú að þetta væri réttlætanleg aðgerð, hún ætti að geta gagnast í verulegum mæli þeim sem í hlut eiga og þegar upp er staðið ættu vonandi báðir aðilar, ríkissjóður og fyrirtækin, að geta unað sæmilega vel við.

Óvenjulegir tímar kalla oft á óvenjulegar aðgerðir og þó að þetta væri eitthvað sem menn veltu sjálfsagt ekkert almennt fyrir sér að gera við hefðbundin og venjuleg skilyrði eru þau skilyrði einfaldlega ekki uppi núna. Við þurfum að skoða ýmislegt sem kannski má flokka undir óhefðbundna nálgun sem mætir þeim aðstæðum sem við er að glíma.

Hv. þm. Helgi Hjörvar fullvissaði okkur um að hv. efnahags- og skattanefnd mundi fara vandlega yfir þau atriði sem hér hefur borið á góma. Það er vel. Að sjálfsögðu er ekki við öðru að búast en að vinnan í þeirri nefnd verði vönduð.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi til sögunnar útboð og lág tilboð sem borist hafa í verkefni, kannski ekki síst á sviði jarðvinnu og mannvirkjagerðar. Það er alveg rétt, þau eru það en þá er þar til að taka að þar hefur orðið gríðarleg breyting og samkeppni mjög hörð um verkefni eftir þann mikla samdrátt sem orðið hefur á því sviði. Vilja menn reyna að hlutast til um það með einhverjum öðrum hætti en þeim að ábyrgðin verði að hvíla á þeim sem annars vegar gerir tilboðin og hins vegar þeim sem felur þá viðkomandi aðila verkin. Venjan hefur ekki verið almennt að hugsa það þannig heldur eigi menn að axla ábyrgð á báðar hliðar. Verkkaupinn gerir að sjálfsögðu sínar kröfur. Það gera allir þeir stærri og ábyrgari aðilar sem bjóða út verkefni, þeir gera kröfur til þess að sá sem býður uppfylli tiltekin skilyrði, geti sýnt fram á fagþekkingu og getu til að framkvæma verkið, geti reitt fram viðunandi tryggingar og þar fram eftir götunum. Stærri aðilar, eins og Vegagerðin og aðrir slíkir, hafa gjarnan lista við að styðjast þar sem reynsla manna úr fyrri verkum er metin. Sumir ná ekki inn á þann lista eða eru settir á svarta hluta hans, einfaldlega hefur reynslan af viðskiptum við þá ekki verið nógu góð. Þannig er reynt að bregðast við þessu.

Hvenær eru hagstæð tilboð orðin að hreinum undirboðum og hvernig er það mælt? Það er vandséð hvernig nákvæmar viðmiðanir eru settar í þeim efnum en um leið er það þannig að þegar verð fer lækkandi og þegar boðið er mjög hagstætt í verk er það yfirlýsing um að hagstætt sé að ráðast í framkvæmdirnar við þær aðstæður. Það getur verkað hvetjandi á fleiri aðila sem sjá að þeir eiga þá kost á því að láta vinna verk á mjög hagstæðu verði, öfugt við það sem var á ákveðnu tímabili þegar þenslan var mest og menn fengu iðulega tilboð sem voru langt yfir kostnaðaráætlunum vegna þenslu á markaðnum. Nú hefur þetta snúist við og sveiflast kannski dálítið langt yfir í hitt borðið en þannig vill þetta ganga fyrir sig.

Hv. þingmaður taldi þetta að vísu hænuskref en ef ég hef tekið rétt eftir þó í rétta átt. Hænuskrefin eru ágæt ef þau eru nógu mörg, þá komast menn býsna langt að lokum ef þeir taka þá mörg og góð skref og þau eru öll í rétta átt. Þetta er eitt af nokkrum málum af þessu tagi sem verið er að reyna að grípa til til að aðstoða atvinnulífið. Ég fór rækilega yfir það í framsöguræðu minni að það mætti líta á þetta sem vissa hliðstæðu við a.m.k. einhvern hluta þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til gagnvart einstaklingum. Ég nefni að þetta er ekki það eina sem þarna hefur verið gert. Hér var lögfest á þriðjudaginn endurnýjuð og framlengd gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem er einhvers konar greiðsludreifing fyrir það, að menn geti gert upp á tveimur gjalddögum í stað eins. Ég nefndi ýmsar aðgerðir sem hafa tengst því sem innheimtumönnum er uppálagt að reyna að gera, að sýna liðlegheit í störfum. Það má nefna hvernig bændum hefur verið auðveldað að gera upp virðisaukaskatt og margt fleira af því tagi sem allt er liður í því að reyna, eftir því sem kostur er, að styðja við bakið á atvinnurekstri rétt eins og á einstaklingum við erfiðar aðstæður. Hér er þó a.m.k. verið að reyna eitthvað þannig að fyrir þá sem kvarta og kveina mikið undan því að ekkert sé verið að gera get ég nefnt þessi mál og fleiri eru á leiðinni frá fjármálaráðuneytinu þar sem við reynum að mæta ástandinu með ýmsum hætti. Á næstu dögum kemst á dagskrá frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskattslögum sem heimilar bílaleigum að kaupa notaða bíla til að endurnýja eða setja inn í flotann og fá virðisaukaskattinn felldan niður. Það er alls ekki víst að þar með sé það upp talið af þessu tagi sem í vændum er.

Ég vona að það auki þá heldur gleði hv. stjórnarandstæðinga að eitthvað er verið að nudda með ýmislegt af þessu tagi. (BJJ: Sérðu ekki bros?) Vonandi tekur þingið vel við og betrumbætir þetta af sinni alkunnu snilld þannig að útkoman verði góð.