138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt merkileg uppsúmmering hjá hæstv. ráðherra en ég skil eiginlega ekkert í honum að vera með þessa geðvonsku út í okkur óbreytta þingmenn fyrir að koma með málefnalega punkta í kringum mál. Hæstv. ráðherra bregst alltaf ókvæða við og er með einhverjar hnýtingar og raunverulega eins og mál eigi að ganga í gegn umræðulaust, að hér krjúpi menn fyrir ráðherranum, hneigi sig og þakki fyrir að hann leggi fram mál. Þetta er bara málefnaleg umræða hérna, hér eru dregnir fram punktar sem hugsanlega þarf að fara yfir í nefndum þingsins og annað slíkt. (Gripið fram í: Og gallar.) Já, kostir og gallar og annað slíkt til að komast að einhverri viturlegri og góðri niðurstöðu.

Ef við skoðum vegferð þeirra frumvarpa sem ríkisstjórnin hefur lagt fram undanfarið rúmt ár og sem hafa verið samþykkt á Alþingi er sumt ekki mjög gáfulegt. Þess vegna er enn meiri ástæða til að vera á tánum og skoða vel kosti og galla á málum. Ég frábið mér að hæstv. ráðherra sé alltaf með þennan fýlutón við okkur þingmenn ef við tökum til máls um frumvörp sem hann leggur fram.