138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast alls ekki við þessa lýsingu hv. þingmanns á minni ræðu. Ég gerði síður en svo lítið úr athugasemdum, það kom fram í máli mínu að auðvitað tengdust ýmis álitamál svona aðgerð. Ég gerði ekki lítið úr því en ég vakti einfaldlega athygli á þeirri augljósu staðreynd, sem á ekki að vera móðgun í garð eins eða neins eða meiðandi á nokkurn hátt, að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Við verðum að vega og meta: Náum við fram meiri hagsmunum með því að fara í aðgerð af þessu tagi, jafnvel þó að hún kunni að hafa hliðarverkanir sem ekki eru að öllu leyti æskilegar og jafnvel þó að við mundum við aðrar og eðlilegri aðstæður ekki fara út í svona aðgerð? Við verðum að vega og meta það sem undir er. Er þetta skynsamleg ráðstöfun? Náum við fram mikilvægum markmiðum með þessu sem eru auðvitað fyrst og fremst að styðja við fyrirtæki sem eru að ná tökum á fjárhag sínum, endurskipuleggja hann en eru með fortíðarsyndir af þessu tagi í farteskinu og við búum um þær svona þannig að þær verði ekki til þess að fyrirtækin komist ekki í gegnum skaflinn. Það er skilningur og velvilji gagnvart því af hálfu okkar ef aðgerð af þessu tagi nær fram þeim markmiðum.

Að sjálfsögðu er ekki verra ef í leiðinni tekst að tryggja að breyttu breytanda betri innheimtu á útistandandi skattskuldum eða a.m.k. höfuðstóli þeirra en ella hefði mátt búast við. Að sjálfsögðu græðir enginn á því ef fyrirtækin komast í þrot og það er tilfinnanlegt ef það gerist m.a. eða kannski eingöngu vegna svona hluta sem hægt er að takast á við með greiðsluuppgjörsaðferðum af þessu tagi. Ég held að þær séu skynsamlegar og bind vonir við að þessi aðgerð geti gagnast ýmsum aðilum. Þegar þetta er skoðað og brotið niður í tölum gætu tugir milljarða farið úr því að vera gjaldfallnir og með dráttarvöxtum yfir í að vera í uppgjörsferli af þessu tagi og í leiðinni slyppu viðkomandi fyrirtæki fyrir horn. Ef við ræðum þetta (Forseti hringir.) bara í rólegheitum og málefnalega, og ekkert annað stóð til af minni hálfu, held ég að hér sé meiri hagsmunum borgið fyrir minni.