138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru allt mjög réttmætar athugasemdir hjá hæstv. forseta.

Að sjálfsögðu er það áhyggjuefni ef tilboð eru orðin svo lág að ástæða er til að ætla að menn séu að halda sér á lífi á verði sem dugar varla til að mæta kostnaði. En það er hægara um að tala en úr að ráða. Ég kann engar einfaldar aðferðir til að takast á við það, ekki nema ef menn vilja reyna að setja eitthvert lágmarksverð sem bannað yrði að fara niður fyrir. Samkvæmt íslenskum samkeppnisrétti er ekki bann við undirverðlagningu. Ég hef oft velt þeim flötum upp hvort af samkeppnisástæðum ætti hreinlega að reyna, eins og sums staðar þekkist í samkeppnisrétti, að hafa einhverjar viðmiðunarreglur sem hreinlega bönnuðu undirverðlagningu. Það er ekki, það er metið þannig að það sé í valdi manna sjálfra að bera ábyrgð á slíku og í einstöku tilvikum getur verktaki kannski metið það svo að það komi sér betur fyrir hann að hafa verkefni tímabundið þótt á lágu verði sé til að geta haft sinn mannskap á launum, til að geta haldið sínum tækjum við, í von um betri tíma fram undan o.s.frv. Kannski tekur hann meðvitað ákvörðun um það að ganga jafnvel eitthvað á eigið fé síns fyrirtækis. Allt eru þetta álitamál sem upp koma.

Við skulum ekki heldur gleyma hinu að verkkaupinn er sá sem setur viðmiðanirnar að sínu leyti og almennt er það þannig að menn taka ekki tilboðum nema ástæða sé til að ætla að verksalinn geti staðið við þau, hann geti sett fullnægjandi tryggingar og margir aðilar henda út tilboðum sem eru talin óraunhæf. Það er alls ekki svo að lægstu tilboðum sé alltaf tekið heldur er það iðulega þannig að þeim er hent út og tekin hagstæðustu tilboð sem talin eru raunhæf og sem uppfylla skilyrði um tryggingar og annað slíkt.