138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist að menn þurfi líka að vera á íslenskunámskeiðum hér, það eru ýmis námskeiðin sem þingmenn þurfa að fara í samhliða annasömu starfi.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þess svör svo langt sem þau ná. Það hafa gengið dómar, m.a. í frægu mjólkurmáli, þar sem undirverðlagning var bönnuð. Við höfum því ákveðin fordæmi þess efnis að gangi menn svo hranalega fram með vítaverðum hætti að stunda alger undirboð sem leiða til þess að fyrirtæki, sem hafa verið rekin með mjög myndarlegum hætti á undangengnum árum, eru verðlögð út af markaðnum þá er eitthvað að þeim markaði. Hæstv. ráðherra hefur ekki á undangengnum mánuðum verið talsmaður hins hreina afskiptalausa markaðar. Ég hef ekki orðið var við það í ræðum og riti hæstv. ráðherra. Hann kemur mér því á óvart, sá tónn sem hæstv. ráðherra kemur með í umræðuna. Það kemur á óvart þegar maður er að velta upp einhverju vandamáli og vill kannski reyna að leysa það með einhverjum hætti, þótt hvorki hann né ég hafi lausnirnar, að menn skuli þá bara standa og yppta öxlum hér og gefast upp fyrir verkefninu og vandamálinu.

Við erum saman komin til að reyna að leysa þessi vandamál. Vandinn er til staðar, hann er fyrir hendi. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa orðið var við það á ferð sinni um kjördæmi sitt, m.a. á Miðausturlandi, að þar eru verktakar sem ræða mjög mikið um þetta vandamál. Að sjálfsögðu eru hundruð eða þúsundir starfa undir og miklir fjármunir í bönkunum sem menn þurfa þá að afskrifa ef menn standa í þessum vitleysisundirboðum. Ég hvet hæstv. ráðherra því til að skoða þessi mál með einhverjum hætti og helst ættum við að reyna að skoða þetta í sameiningu þvert á flokka í þessu máli eins og Icesave-málinu þar sem við höfum náð gríðarlega miklum árangri. Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög ánægður með það hvernig menn hafa náð saman í því máli og af hverju ekki í einhverjum fleiri málum?