138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[16:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra í tilefni af þessu frumvarpi hvort það sé réttur skilningur hjá mér að þær breytingar sem verið er að gera á nauðasamningum séu til þess fallnar að hjálpa þeim fyrirtækjum sem leita þurfi nauðasamninga og eru nokkuð lífvænleg til að fara aftur út í óbreyttan rekstur. Það hefur nokkuð verið gagnrýnt að nauðasamningsúrræðið taki það langan tíma að það hafi áhrif á rekstur fyrirtækjanna. Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að þessu.

Annars langar mig, í tilefni af þessu frumvarpi, að taka það fram að við munum, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, fara rækilega yfir þetta mál. Við fyrstu sýn, eins og við er að búast þegar litið er til þess að réttarfarsnefnd kemur að samningu frumvarpsins, er það mjög ítarlega rökstutt en mig langar þó að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvort uppi sé vinna af hálfu dómsmálaráðuneytisins um réttarbætur til handa skuldara sem nokkuð hefur verið um rætt undanfarin missiri, sér í lagi sé litið til gjaldþrotaréttarins, hvort réttarfarsnefnd hafi verið falið að skoða nánari úrræði til að mæta skuldurum, þ.e. flýta því ferli sem þar er þannig að hægara sé fyrir skuldara að rétta stöðu sína aftur.

Þetta er umræða sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir. Þetta er kannski sú umræða sem er hvað háværust þegar kemur að fullnusturéttarfarinu. Í tilefni af þessu frumvarpi held ég að ástæða sé til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að þessu.