138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem ég var að vekja athygli á er að þegar erlend lán eru tekin, sérstaklega hjá sveitarfélögum sem hafa tekjur í íslenskri mynt — það varð mörgum heimilunum að falli. Til að við getum breytt því verðum við líka að hafa vaxtastigið þannig að það sé mögulegt fyrir aðila að taka íslensk lán. Það var orsök þess að sveitarfélögin tóku erlend lán. Þetta gerðist líka á mörgum árum. Mörg sveitarfélög tóku erlend lán, síðan styrktist gengið og þá var rekstrarafkoma sveitarfélagsins mjög góð. Þá var einmitt ekki kafað ofan í grunninn á því hvað í raun og veru skapaði þessa góðu afkomu viðkomandi sveitarfélags en að sjálfsögðu mun það verða gert þegar þessar reglur hafa tekið gildi og menn fara að fá nákvæma ársfjórðungslega skýrslu um stöðu sveitarfélaganna. Þá geta menn brugðist við og séð hvað í raun og veru skapar hagnaðinn eða rekstrarafkomuna hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir þessu í nokkurn tíma vegna þess að þegar við ræddum um stöðu sveitarfélaganna fyrir nokkrum vikum síðan benti einmitt hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir á að þetta væri hlutur sem væri mjög æskilegt að skoða og læra af því sem afvega hefur farið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn skoði þetta með kostum og göllum en ég er ekki viss um að það sé hægt að bíða með að taka ákvörðun í þessum málum þar til hæstv. samgönguráðherra verður kominn í Evrópusambandið. Ég held að við ættum ekki að treysta á það heldur skoða þetta ofan í kjölinn áður en að þeirri vegferð kemur.