138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala örstutt um þetta frumvarp af því að ég kom inn á þær spurningar sem ég vildi fá svör við í andsvörum við hæstv. samgönguráðherra. Það bregður þannig við að hæstv. samgönguráðherra svarar nefnilega andsvörum en það sama er ekki hægt að segja um hæstv. sjávarútvegsráðherra, því það er alveg sama um hvað maður spyr hann og þótt maður spyrji hann sömu spurninganna mörgum sinnum fær maður engin svör.

Eins og ég sagði áðan fagna ég því að þetta frumvarp er komið fram því ég tel mjög mikilvægt að náð sé utan um fjármál sveitarfélaganna. Þetta frumvarp gengur út á að eftirlitsnefndinni sé gert heimilt að kalla eftir upplýsingum ársfjórðungslega en eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni áðan hefur þetta verið gert einu sinni á ári og það líður of langur tími á milli. Ég tel því að þetta sé til mikilla bóta. Það gefur augaleið að við fáum að sjálfsögðu miklu betri upplýsingar og þar af leiðandi mikið betri vitund um stöðu sveitarfélaganna hverju sinni.

Það er eitt sem mér finnst að þurfi að skoða hugsanlega í framhaldi af þessari vinnu, og hv. samgöngunefnd gerir það ábyggilega, en það er að í mörgum sveitarstjórnum stýra kannski bara fjórir einstaklingar sveitarfélagi í fjögur ár. Þessir fjórir einstaklingar taka oft og tíðum mjög stórar ákvarðanir sem geta steypt sveitarfélögum í mjög mikil vandræði. Því er spurning að menn ræði hvort það þurfi hugsanlega aukinn meiri hluta fyrir stórum ákvörðunum eða jafnvel að leyfa íbúunum að kjósa ef menn taka ákvarðanir sem varða kannski fjárskuldbindingar sveitarfélagsins um tugi prósenta. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að ræða hvernig þetta verður gert. Eins og ég sagði áðan eru það hugsanlega fjórir einstaklingar sem taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir inn í framtíðina og þeir sem taka við af þeim þurfa kannski að draga úr þjónustu, hækka skatta o.s.frv. eins og við þekkjum því miður dæmi um.

Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur líka fram að í mörgum tilfellum eru það þessi sveitarfélög, svokölluð vaxtarsveitarfélög, sem hafa farið verst út úr kreppunni vegna þess að þar var öll uppsveiflan, þar voru framkvæmdirnar og þar sitja menn uppi með stórar framkvæmdir í gatnagerð og öllu tilheyrandi, hafa útbúið lóðir og keypt upp land til þess, en síðan þegar niðursveiflan kom sitja menn uppi með allar þessar fjárfestingar. Ég held að það væri mjög mikilvægt líka í ljósi þessarar reynslu að skipulagsmálin í heild sinni, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, væru sameiginleg. Við upplifðum það í þenslunni að hvert einasta sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu byggði og útbjó svæði fyrir allar þær nýbyggingar og þá fjölgun á íbúum sem átti að verða á öllu Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er ástæðan fyrir því að sveitarfélögin sitja mörg hver uppi með mjög dýrar og miklar framkvæmdir sem er í raun og veru ekki hægt að nota nema á mjög löngum tíma.

Mig langar aðeins að fylgja þessu eftir varðandi að kostnaðarreikna frumvörpin. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það sé gert og ég held líka að það sé mjög mikilvægt að menn ræði það í þessum hópi. Ég heyri það á hæstv. ráðherra að samvinnan gengur vel og það er gott því að menn þurfa líka að taka samskipti ríkis og sveitarfélaga á allt annað plan en hefur verið. Þau hafa ekki verið nógu góð undanfarin ár í mörgum málum. Auðvitað hefur verið sátt um sum mál en ekki öll og þegar verið er að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna eru sveitarstjórnarmenn oft brenndir af því að þeim fylgir ekki nægilegur tekjustofn áfram. Það veldur því að margir sveitarstjórnarmenn eru jafnvel frekar afhuga því að taka að sér frekari verkefni vegna þess að menn eru hræddir um að þeir tekjustofnar sem þurfa að fylgja verkefninu komi ekki með.

Ég held að það væri mjög skynsamlegt að menn færðu þetta á það stig að þegar menn réðust í ákveðið verkefni áætluðu menn að það mundi kosta tiltekna upphæð og síðan yrði það endurskoðað eftir kannski tvö, þrjú ár, á tveggja ára fresti eða eitthvað svoleiðis. Þá væri það rétt af, hvort heldur sem hallaði á ríki eða sveitarfélög. Þá þyrftu menn ekki að sitja yfir því í marga mánuði að reyna að finna út einhvern kostnað sem ætti að fylgja verkefninu og þá tekjustofna sem færu með því. Menn færu ekki svo djúpt í þá umræðu eða pexuðu um það mjög lengi heldur réttu það frekar af þegar raunkostnaðurinn liggur fyrir. Það held ég að væri mun skynsamlegra. Eins og stefnt er að hér er líka verið að ræða um fjármál opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem er mjög mikilvægt að mínu mati. Auðvitað þurfum við að ræða þessi mál á þeim grunni eins og lagt er til í greinargerðinni, þannig að menn komist áfram í því að gera það með þeim hætti, eða sleppa því eins og hefur verið gert mörg undanfarin ár. Það er mjög mikilvægt að mínu viti þannig að menn hætti að rífast og eyða miklum og dýrmætum tíma bæði sveitarstjórnarmanna og framkvæmdarvaldsins í að sitja yfir og pexa og rexa yfir hlutum sem þyrfti ekki að gera heldur væri einfaldlega hægt að leiðrétta þá þegar raunkostnaður liggur fyrir.

Ég legg mikla áherslu á að hér eftir verði frumvörpin kostnaðarreiknuð, hvað varðar lagafrumvörp sem koma fram á Alþingi, þannig að við lendum ekki í því aftur eins og í haust að færa tekjur frá sveitarfélögunum til ríkisins upp á 2,5 milljarða. Það er mjög bagalegt að það sé gert. Ég er afskaplega ósáttur við það og hef ekki leynt þeirri skoðun minni að þetta megi ekki halda áfram á þeirri braut sem verið hefur.

Að lokum, virðulegi forseti, fagna ég þessu frumvarpi. Markmiðið er að sjálfsögðu að reyna að ná betur utan um og setja meira aðhald á sveitarfélögin. Það er líka mjög gott fyrir þau í sjálfu sér, þá eru þau betur upplýst en mörg hafa greinilega verið á undanförnum árum. Að öðru leyti vísa ég til þess að við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu ræða þetta efnislega og leggja okkar af mörkum í hv. samgöngunefnd.