138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ágæta ræðu og þá fyrst og fremst fyrir brýningu til þeirra sem sýsla með fjármál ríkisins að fylgja vel eftir því uppleggi sem fyrir þá hefur verið lagt. Ég get upplýst þingmanninn um að nú þegar er verið að undirbúa innan fjárlaganefndar sérstakt verkefni eða átak í því að fylgja fjárlögum ársins 2010 eftir betur en hingað til hefur verið gert. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega hefur okkur ekki tekist alls kostar upp á því sviði mörg undanfarin ár.

Ég bendi einnig á að á undanförnum árum hafa um eða yfir 100 stofnanir farið fram úr áætlun. Á síðasta ári gerðist það þó hins vegar að þeim fækkaði um helming. Ef ég man rétt fóru 45 stofnanir í stað 100 yfirleitt fram úr áætlun á árinu 2009, því erfiða ári, þannig að ýmislegt bendir til að hægt hefði verið að ná þessum árangri fyrr með betri aga á stjórn fjármála, fjárlögum ríkisins, en það þurfti þetta til. Menn komu sér upp sinni eigin svipu má segja til að fylgja fjárlögum, voru á tánum vegna þess að samdráttur var í rekstri ríkisins og menn vita yfirleitt hvað bíður þeirra í framtíðinni, það þarf að sýna aga, það þarf að sýna aðhald. Þegar á reyndi var það vel hægt og stjórnendum stofnana tókst bara vel upp á síðasta ári hvað það varðar en það þarf að fylgja þessu mun betur eftir heldur en gert hefur verið hingað til, eins og hv. þingmaður benti réttilega á. (Forseti hringir.)