138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir málið og held að það horfi sannarlega til bóta um leið og ég vil taka undir orð síðasta hv. þingmanns um að við getum auðvitað ekki staðið hérna megin og bent bara á hina. Við þurfum að fylgja aðhaldssemi í fjármálum ríkisins ekki síður en að gera kröfur til sveitarfélaganna, sem gegna æ stærra hlutverki í efnahagsstjórn landsins. Við tókum forskot á sæluna í efnahags- og skattanefnd á dögunum með umræðu um fjármál sveitarfélaganna og þann hagstjórnarsamning sem verið er að vinna að og ég held að mjög brýnt sé að af verði.

Í ljósi reynslunnar eru klárlega ýmis álitamál sem við þurfum að ræða mjög alvarlega og taka afstöðu til á næstu mánuðum. Það er í fyrsta lagi um einhvers konar takmarkanir á það hversu langt megi ganga í skuldsetningu, enda má jafnvel setja spurningarmerki við það hvort sveitarsjóðirnir sjálfir eigi yfir höfuð að vera skuldsettir. Takmarkanir á skuldsetningu sveitarfélaga þekkjast auðvitað mjög víða í löndum bæði austan hafs og vestan og óhjákvæmilegt í ljósi reynslunnar að við ræðum það og mótum afstöðu okkar til þess.

Augljóslega þarf að setja skýrar skorður við hallarekstri sveitarsjóða og takmarka möguleika til þess frá því sem nú er, enda er það ekki hlutverk sveitarsjóðanna að vera sveiflujafnandi í hagkerfinu, heldur er það fyrst og fremst hlutverk ríkisins sem nýtur sveifluteknanna, neysluskattanna og hefur þau áhrif í sínum fjármálum. Auðvitað á að vera meiri stöðugleiki hjá sveitarfélögunum og þess vegna hljótum við líka að þurfa að fara yfir heimildir þeirra til að taka lán í öðrum gjaldmiðlum en tekjur þeirra eru í. Það hefur í mörgum tilfellum sannarlega ekki reynst kunna góðri lukku að stýra og óhjákvæmilegt er að fjalla um það og taka afstöðu til þess sem og til ýmiss konar rekstrarleigu og einkaframkvæmdarsamninga sem hafa sannarlega iðulega leitt til ófarnaðar í rekstri og kannski villt nokkuð um og lengt skuldsetningu ýmissa sveitarfélaga.

Ég held að þau fjögur atriði sem ég nefndi séu þau sem upp úr stóðu í þeirri umræðu sem fram fór í efnahags- og skattanefnd um efnið og ég held að nokkuð góð samstaða sé um að sannarlega þurfi að skoða og taka afstöðu til þeirra í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég hvet til þess að í hagstjórnarsamningi verði skilningur sveitarfélaganna sá sami og okkar á hlutverki ríkis og sveitarfélaga og samvinna verði aukin. Um leið og ég þakka fyrir þetta frumvarp fagna ég boðuðum breytingum hæstv. ráðherra á sveitarstjórnarlögunum síðar á árinu í framhaldi af þeirri vinnu.