138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

framhaldsfræðsla.

233. mál
[18:23]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ánægjulegt frumvarp sem er frumvarp til laga um framhaldsfræðslu. Eins og þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað lýsi ég því yfir að samstarfið í hv. menntamálanefnd var afar ánægjulegt og greinilegt að það var metnaður allra að ljúka þessu þarfa máli.

Mig langar að fara yfir örfá atriði í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er talað um skipulag framhaldsfræðslu á vegum fræðsluaðila sem hljóta ákveðna viðurkenningu og það skiptir heilmiklu máli. Við sjáum hér háleit markmið þar sem talað er um að veita einstaklingum með stutta skólagöngu aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Það er talað um að veita einstaklingum á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu viðeigandi námstækifæri, auðvelda þeim að hefja nám að nýju og auk þess að gefa einstaklingum færi á að efla starfshæfni sína og efla ábyrgð í því tilliti. Síðan er talað um úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni og að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra eða hæfni. Einnig á að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla og háskólakerfis, stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum og efla menntunarstig í landinu og íslenskt menntakerfi. Þetta eru háleit markmið og það er svo sannarlega ánægjulegt að sjá þau hér og vonandi verða þau að lögum.

Mig langar aðeins til þess að fara í orðskýringar. Ég er mjög ánægð með þetta orð, framhaldsfræðsla, þar sem ekki er bara verið að tala um nám og kennslu heldur nám, úrræði og ráðgjöf. Það á að mæta þörfum einstaklinga sem eru með stutta formlega skólagöngu að baki og það er ekki skipulagt á grundvelli hinnar formlegu menntunar. Ég held að þessi atriði, nám, úrræði og ráðgjöf, skipti afar miklu máli því oft og tíðum eru nemendur sem fara í þessa framhaldsfræðslu ekki með mikið nám að baki, gjarnan er langt síðan þeir hafa verið í námi og kannski ekki ólíklegt að einhverjir þeirra hafi neikvæða reynslu af skólakerfinu. Ég legg áherslu á að mér finnst skipta mjög miklu máli að það er nám sem þarna fer fram, þau fá ákveðin úrræði og kenndar eru leiðir til að ná árangri, leiðir til þess að komast fram hjá hömlunum sem hugsanlega valda því að viðkomandi hefur ekki farið alveg hefðbundna leið í námi, og síðan ráðgjöf um það hvernig maður fer í gegnum nám og eins hvernig best sé að fara í framhaldið.

Mig langar einnig að minnast á raunfærnimatið sem ég held að sé afar dýrmætt tæki sem við erum sem betur fer nú þegar búin að taka talsvert í notkun. Þar fær fólk ekki bara skólagöngu sína metna heldur starfsreynslu, starfsnám og jafnvel félagsstörf og lífsreynslu. Þetta er afar mikils virði því þegar fólk er búið að ná ákveðnum aldri er það ekki síst lífsins skóli sem skiptir máli þegar áfram er haldið í námi.

Í sambandi við tilhögun námsins er ég mjög ánægð með að þetta sé hugsað sem nám samhliða vinnu og það sé hugsað fyrir því að á náminu sé eðlilegt mat þannig að nemendur sem það vilja geta fengið þetta nám sitt metið inn í formlegt nám, t.d. í framhaldsskólakerfinu. Það skiptir heilmiklu máli að byggð sé ákveðin brú til annarra stoða menntakerfisins. Ég held að það skipti mjög miklu máli að hér sé talað um að gera námskrár eða námslýsingar og að ráðherra eða aðili á hans vegum þurfi að votta þær námskrár, því þá er ákveðin samræming þarna á milli og það auðveldar einmitt þessa brúargerð yfir í annað nám.

Hér er talað um viðurkenningu fræðsluaðila, eða sérstaka leyfisveitingu í raun og veru, þar sem þarf að vera til staðar aðstaða, skipulag og námskrá, fjárhagur þarf að vera í lagi og það sem skiptir miklu máli, tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna. Á síðari stigum hefur nefndin viljað breyta þarna um og kemur fram með breytingartillögu um að ákveðin menntun og reynsla sé að sjálfsögðu metin líka þegar aðilum er veitt leyfi til þess að stunda eða bjóða upp á svona framhaldsfræðslu.

Einnig er talað um Fræðslusjóð sem á að hafa þrenns konar hlutverk. Hann á að styrkja kennslu, þar kemur raunfærnimatið og náms- og starfsráðgjöf inn, og síðan nýsköpun og þróunarverkefni. Margt í þessu frumvarpi væri jafnvel spennandi að hið formlega menntakerfi tæki talsvert mið af.

Í sambandi við stjórnina, eins og hv. formaður menntamálanefndar benti á, liggur hér frammi breytingartillaga í þá veru að einum manni verði bætt inn í stjórnina og Félag íslenskra framhaldsskóla fái sinn stjórnarmann til þess í raun og veru að tryggja þessa brúarsmíð frá framhaldsfræðslunni yfir í hið formlega menntakerfi.

Síðan er talað um mat og eftirlit sem ég held að skipti mjög miklu máli, þ.e. að því sé fylgt eftir að þetta nám sé í samræmi við lög og gæði þess séu viðurkennd.

Rætt er um réttindi einstaklinga, bæði að gætt verði að persónuverndarsjónarmiðum og eins að ákveðin skrá verði haldin yfir námsferla þannig að einstaklingar geti auðveldlega geymt það sem þeir hafa lokið ef þeir taka hlé á þessari menntun sinni, eins og gert er í öðrum kerfum, og þeir geti síðan haldið áfram á grundvelli þess.

Hér er talað um ytra og innra eftirlit þar sem er gert ráð fyrir að fræðsluaðilarnir sjálfir meti sitt innra starf og ráðuneytið eða óháðir aðilar í umboði ráðherra sjái síðan um hið ytra eftirlit. Við gerum heilmiklar kröfur til þessarar framhaldsfræðslu, til þessa námsúrræðis og ráðgjafar sem hér er boðið upp á, og það skiptir mjög miklu máli.

Á heildina litið held ég að við séum með afar merkilegt mál í höndunum þar sem við erum í raun og veru að byggja fimmtu stoðina í menntakerfi okkar. Núna erum við með heildstæða löggjöf um menntamál nánast frá vöggu til grafar. Markmiðið er náttúrlega fyrst og fremst að auka menntunarstig þjóðarinnar um leið og við viðurkennum að reynsla, þekking og lífsins skóli skiptir mjög miklu máli og að það sé eðlilegt þegar maður er orðinn fullorðinn eða eldri að maður fái það metið sem hluta af skólagöngu sinni.

Ég er mjög ánægð með þær áherslur sem hérna koma fram í því að gert er ráð fyrir að nemendum sé kennt að læra miðað við sínar aðstæður. Eins og ég minntist á framar í máli mínu eiga sjálfsagt margir af þeim aðilum sem ekki hafa lokið formlegu námi við einhvers konar námserfiðleika að etja og það er afar mikilvægt að þeir fái aðstoð og hvatningu til þess að þeir sjái að það er hægt að læra með ýmsum ráðum og þótt manni hafi kannski einhvern tímann ekki gengið vel er mjög líklegt að með nýjum aðferðum geti maður lært og nýtt reynslu sína og þekkingu.

Ég er ánægð með að gert sé ráð fyrir námskrám þannig að það er í raun og veru hæfileg samræming til hagræðis fyrir alla. Við megum ekki gleyma því að því miður er menntunarstig Íslendinga kannski ekki eins gott og við gjarnan vildum. Þannig kemur t.d. fram í athugasemdum við frumvarpið að 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára höfðu ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám árið 2005. Það þýðir sem sagt að 45.000 Íslendingar höfðu aðeins lokið grunnskólanámi árið 2005, 60.000 manns höfðu lokið framhaldsskóla eða viðbótarnámi og önnur 45.000 höfðu lokið háskólaprófi. Það er sem sagt einkenni á íslenskum vinnumarkaði að menntunarstig er lágt. Það hlýtur því að skipta okkur miklu máli og vera beinlínis efnahagslegur ávinningur og auka lífsgæði Íslendinga að við komum á ákveðnu úrræði til þess að fólk á öllum stigum og öllum aldri geti fundið leið til þess að auka menntunarstig sitt og finna menntun við sitt hæfi.