138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

framhaldsfræðsla.

233. mál
[18:33]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um framhaldsfræðslu sem hefur það markmið að styrkja lagalegan grundvöll þeirrar starfsemi sem réttilega hefur verið kölluð fimmta stoðin í menntakerfi okkar. Formaður menntamálanefndar fór vel yfir þær áherslur sem koma fram í frumvarpinu og þau sjónarmið sem búa að baki þeim breytingartillögum sem koma frá menntamálanefnd við frumvarpið. En mig langar að nota tíma minn hér til að fjalla nokkrum orðum um þær vísbendingar sem frumvarpið og sú mikilvæga starfsemi, framhaldsfræðsla, gefur okkur um stöðuna í menntakerfi okkar.

Við Íslendingar hreykjum okkur oft af því að við séum vel menntuð þjóð sem verji miklum fjármunum til menntamála. Það er rétt að fjárframlög til menntamála eru hlutfallslega há hér á landi í alþjóðlegum samanburði og hafa farið vaxandi en hinu getum við ekki neitað, og það kemur kannski óþægilega við okkur, að menntunarstig á íslenskum vinnumarkaði er lágt og sá hópur sem einungis hefur lokið skyldunámi er óvenju stór í alþjóðlegum samanburði.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur hér á undan hefur 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára ekki lokið námi umfram skyldunám. Þetta er gríðarlega stór hópur, nánar tiltekið 45 þúsund manns, ef tekið er mið af þessum gögnum frá 2005. Það segir sína sögu á móti að jafnstór hópur, um 45 þúsund manns, hefur hins vegar lokið háskólanámi, sem er nokkuð yfir meðaltali innan OECD-ríkjanna. Hvað segir þetta okkur? Goðsögnin um að Ísland sé samfélag þar sem allur þorri almennings er vel menntaður er ekki nema að takmörkuðu leyti í samræmi við þann veruleika sem við okkur blasir, því miður. Það er erfitt að þurfa að viðurkenna þetta en tölurnar tala sínu máli. Tæpur þriðjungur landsmanna á vinnumarkaði hefur lokið háskólaprófi en jafnstór hópur er eingöngu með grunnskólamenntun og það heitir á mannamáli að djúp gjá hefur myndast milli vel menntaðra Íslendinga og hinna sem hafa litla formlega skólagöngu að baki.

Stærðargráðan er sláandi. Það eru tæplega 30 þúsund manns skráðir í íslenska framhaldsskóla árið 2009 og ef við gefum okkur, eins og rannsóknir hafa sýnt á undanförnum árum, að um þriðjungur hverfi úr námi eru það um 10 þúsund manns. Þetta er grafalvarlegt mál og áfellisdómur að mínu mati yfir menntakerfi okkar hve stór hlutur nemenda hrökklast úr skólakerfinu eftir að skyldunámi er lokið. Afleiðingin er dýrkeypt fyrir einstaklinginn og samfélagið. Stór hluti fjárfestingarinnar í menntakerfinu skilar sér ekki í þjóðarbúið en það sem enn meira er um vert, við erum ekki að virkja sem skyldi þann auð sem býr í þjóðinni þegar þriðji hver nemandi yfirgefur skólakerfið án þess að afla sér framhaldsmenntunar.

Ég tel að þetta verkefni sé svo stórt, svo afdrifaríkt að það kalli á sérstakt þjóðarátak og tónninn hefur þegar verið sleginn, því að í yfirlýsingu stjórnvalda frá 17. febrúar 2008 segir: „Stefnt verði að því að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020.“

Hér er hins vegar mikið verk að vinna. Við höfum sett okkur markmiðið en hingað til hefur minna farið fyrir áþreifanlegum tillögum um hvernig við ætlum að ná þessu háleita markmiði. Það eru ekki nema tíu ár til stefnu. Verkefnið er risavaxið og við þurfum að skipuleggja strax hvernig við ætlum að tryggja að framhaldsskólakerfið á Íslandi nái að svara þörfum nemenda með ólíka hæfileika og getu.

Ég held að við þurfum að horfa gagnrýnum augum á menntakerfi okkar og viðurkenna að við höfum kannski vanrækt að hluta til það hlutverk að spyrja nægilega gagnrýninna spurninga um innra starfið í okkar skólum. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að búa svo um hnútana að menntakerfið leitist við að draga fram og virkja hæfileika hvers einasta nemanda með námsleiðum og úrræðum sem eru sniðin að þeim óhjákvæmilega fjölbreytileika sem hlýtur að birtast í hæfileikum og getu ólíkra einstaklinga. Sumir eru lesblindir en snillingar í höndunum, aðrir glíma við ofvirkni en hafa óumdeilanlega færni á tilteknum verklegum sviðum, enn aðrir berjast við einhverfu sem kallar á mikla sérkennslu, en það veitir okkur ekki skjól til að bjóða þjónustu sem er ófullnægjandi. Við eigum að hafa metnað til að sinna hverjum einasta manni með það að markmiði að hann komi sterkari út úr skólakerfinu, fær um að taka þátt í lífinu af reisn. Allir geta lært þótt þarfirnar séu vissulega mismunandi. Þetta er í raun krafa um eins konar þjónustutryggingu í íslenska skólakerfinu, að við lítum á það sem rétt hvers nemanda að fá fullnægjandi þjónustu í menntakerfinu.

Ég vil taka dæmi af raunfærnimatinu, sem ég tel að sé afar mikilvægt verkfæri í fullorðinsfræðslunni og framhaldsfræðslunni, og þetta frumvarp gerir vel í því að styrkja stöðu raunfærnimatsins í lagaumhverfi okkar. Ég tel að sama hugsun og þar gildir, að meta hvern einstakling að verðleikum, sé leiðarvísir um það hvernig við þurfum að haga málum okkar í framhaldsskólakerfinu til að koma í veg fyrir það að brottfallið verði áfram svo stórt að við þurfum að sinna fólki sem fær annað tækifæri til náms með þeim umfangsmikla kostnaði sem raun ber vitni. Hér er vissulega verið að taka á brýnni þörf í okkar menntakerfi eins og það lítur út í dag en það er meira en að segja það fyrir menntakerfið, fyrir þetta stoðkerfi fyrir þá sem eru að sækja sér annað tækifæri til náms að þurfa að setja þetta mikla fjármuni í þá kennslu, sérstaklega á tímum eins og þessum þegar við þurfum að spara hverja krónu.

Það frumvarp sem hér er til umræðu er sannarlega mikilvægt innlegg til að styrkja enn frekar samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og skólakerfisins á sviði fullorðinsfræðslu í landinu. Ég nefni sérstaklega þá breytingartillögu menntamálanefndar að huga að formlegri aðkomu Félags framhaldsskóla að stjórn Fræðslusjóðs sem nauðsynlegri tengingu og samþættingu milli þeirra aðila sem hafa með höndum fullorðinsfræðslu í landinu. Ég vil brýna okkur, brýna þingmenn úr öllum flokkum að grípa til róttækra aðgerða til að draga úr brottfalli í framhaldsskólum okkar og tryggja það að allir nemendur í framhaldsskólum fái þá fræðslu og menntun sem virkjar hæfileika þeirra og getu.