138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson deilum áhyggjum okkar af tekjum ríkissjóðs og afkomu sjóðsins þar sem við erum báðir fjárlaganefndarmenn. Það er mikilvægt að við horfum til allra tekjustofna. Ég hef haft áhyggjur af því í umræðunni undanfarið, sérstaklega þegar verið er að ræða um stærri verkefni og aðkomu lífeyrissjóða og annað þess háttar, að í vörninni á þessu erfiða tímabili eru allir komnir í þessa „þið-umræðu“, það eru allir að tala um hvað hinir eigi að gera en fæstir tala um hvað þeir ætla að gera sjálfir. Við höfum setið ráðstefnur, hvort sem er hjá viðskiptaráði eða Samtökum atvinnulífsins, þar sem minnst hefur verið fjallað um þeirra þátt en bent á að aðrir hafi ætlað sér að gera einhverja ákveðna hluti. Þannig hefur mér fundist aðkoma lífeyrissjóðanna hafa verið, svo ég noti tækifærið til að koma því á framfæri. Á sama tíma og þeir treysta sér ekki til að lána til verkefna á sambærilegum kjörum við það sem þarf, kenna þeir stjórnvöldum um að stuðla ekki að því að framkvæmdir fari í gang.

Varðandi sjávarauðlindina eigum við þar veruleg verðmæti og ég hef talað fyrir því allt frá því ég kom hér inn á þing árið 2007, þegar aflaheimildir voru skornar niður, að það sé mjög þess virði að skoða hvort við eigum ekki taka lán í auðlindinni. Ég hef talað fyrir því að í þessu ástandi sem núna er sé skynsamlegt að auka aflaheimildir, bæta þar við. Ég hef raunar áður sagt það hér úr ræðustóli að það ætti að horfa á það að reyna að bæta þarna við 20–40 þús. tonnum til þess að reyna að tryggja betri afkomu í landinu. Ég veit að það er ekki alveg vandræðalaust, það eru ýmis ljón í veginum því að það þarf að tryggja að verð fiskafurða haldist. Það þarf líka að tryggja að við förum eftir öllum þeim reglum sem við höfum sett okkur um nýtingu auðlinda. En ég held að að fengnum upplýsingum um það með hvaða hætti staðan er hér í kringum landið í þeirri sjávarútvegsumræðu sem átt hefur sér stað, sé tækifæri til aukinna tekna og við eigum ekki að hika við að fara þá leið. Ég skora á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skoða þennan möguleika mjög ítarlega og hef raunar áður komið því á framfæri við hæstv. ráðherra.