138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Öll vitum við að hér þarf að skera niður og ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að þegar við tökum ákvarðanir um niðurskurð þurfum við fyrst og fremst að horfa til öryggis borgaranna. Við erum væntanlega öll hér inni sammála um að nýta vel þá fjármuni sem lagðir eru til löggæslumála og þess vegna er gott að undirbúa vel þann grunn sem verður til ákvarðanatöku. Nú hefur komið í ljós samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups frá því í mars að lögreglan nýtur mests trausts þeirra stofnana sem mældar eru samkvæmt þeirri könnun. Það er vel, enda eru störf lögreglunnar mikilvæg. Við sáum öll á atburðunum í fyrravetur hversu mikilvægt það er að búa vel að þeirri stétt. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að taka smáumræðu um þessi mál.

Það er hlutverk okkar sem hér störfum að skapa lögreglunni þá umgjörð að sú stétt geti sinnt störfum sínum sem best. Á síðasta ári voru kynnt áform ríkisstjórnarinnar um stórfelldar breytingar á skipulagi löggæslumála hér á landi. Reyndar var svo fallið frá þeim hugmyndum í bili en ég tel mig vita að enn sé unnið að undirbúningi mikilla breytinga. Við það tækifæri í fyrrasumar var gefin út fréttatilkynning 30. júlí og í henni kom fram að ráðist var í að skilgreina grunnþjónustu lögreglunnar og liggur fyrir viðamikil skýrsla um það. Í þeirri skýrslu kemur í ljós að verkefnin eru fjölmörg og með stoð í gríðarlega mörgum og fjölbreyttum lagaákvæðum en einnig kom í ljós að umtalsvert mikil stoðþjónusta er unnin af lögreglunni. Mig langar að vita hvað sé verið að vinna með þessa skýrslu uppi í dómsmálaráðuneyti, hvort unnið sé að því að færa eitthvað af þessum verkefnum frá lögreglunni og ef svo er, hvert þá. Jafnframt fýsir mig að vita hvernig háttað er undirbúningi að breytingum á skipulagi lögreglu og hvort verið sé í því augnamiði að gera sams konar könnun á því hvernig öryggisstigi eigi að viðhalda í landinu í fyrsta lagi og þá í öðru lagi hvert þjónustustigið eigi að vera, þá fyrst og fremst með vísan til þess að miklar áhyggjur voru uppi, sérstaklega á landsbyggðinni, um þessar breytingar sem kynntar voru í fyrrasumar. Það væri ágætt að fá svör við þessu frá hæstv. dómsmálaráðherra og ef þessi vinna er í gangi væri jafnframt gott að vita hvenær henni lýkur og hvort hún verður lögð fram í þinginu þannig að við getum reynt að átta okkur betur á þessu.

Það er gríðarlega mikilvægt að við sem hér erum áttum okkur á því að það er okkar að ákveða hvaða öryggisstigi eigi að viðhalda í landinu á þessum grunni, á grunni öryggisstigsins sem við viljum viðhalda, á hvaða grunni hvaða þjónustu við ætlum að veita. Þannig getum við tekið ákvörðun um hvaða mannafla er þörf og hvað hann komi þá til með að kosta. Ég tel að við verðum að taka ákvarðanir sem þessar á traustum grunni og vonast til að þessi vinna sé í gangi í ráðuneytinu.

Þá langar mig jafnframt að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé rétt að verið sé að skoða það að flytja rannsókn allra kynferðisbrota yfir til lögreglunnar í Reykjavík. Þetta er vegna ummæla sem ég las í fjömiðlum þann 9. mars um að tillaga þessa efnis væri á borði dómsmálaráðherra. Nokkur umræða hefur spunnist um þetta og mjög margar spurningar vakna, m.a. sú hvort það sé skoðun ráðuneytisins að þessum málaflokki sé ekki sinnt nægilega vel af þeim rannsóknarlögreglumönnum sem starfa víðs vegar um landið. Ég tel reyndar að það sé misskilningur ef sú skoðun er uppi vegna þess að þjónustan og þekkingin er ekki einskorðuð við höfuðborgarsvæðið. Það er mikilvægt að við tökum ákvarðanir sem þessar út frá þeirri þjónustu sem brotaþolinn þarf. Mig langar einfaldlega að fá svör við því hvort það sé rétt að þessi mál séu til skoðunar uppi í ráðuneyti og þá á hvaða grundvelli slík ákvörðun verður tekin ef af verður. Liggur eitthvað fyrir um að málshraðinn sé meiri hjá lögreglunni í Reykjavík? Liggur eitthvað fyrir um hversu margar niðurfellingar á málum af þessu tagi liggja fyrir eftir umdæmum o.s.frv.?

Þá væri líka ágætt að fá fram hjá ráðherranum hvort eitthvað sé á borði ráðherrans, eitthvað sem ráðherrann getur upplýst okkur hér um þá kjaradeilu sem lögreglumenn eru í. Eins og allir vita hafa lögreglumenn ekki verkfallsrétt en hafa óskað eftir leiðréttingu á launum sínum (Forseti hringir.) og svo væri ágætt að fá upplýsingar um það hvernig ráðherrann horfir á það mál.