138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:16]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram í dag um löggæsluna og grunnþjónustu lögreglunnar er í raun og veru framhald af umræðu sem við tókum í þingsalnum í fyrrasumar þar sem rætt var um hlutverk lögreglunnar og skilgreiningu á grunnþjónustu. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þær upplýsingar sem komu fram í máli hennar um þá vinnu sem verið er að vinna í ráðuneytinu um yfirferð á því hvað telst til grunnþjónustu lögreglunnar og um hugsanlegan flutning verkefna til annarra aðila. Aðkoma allsherjarnefndar að þessari vinnu á sínum tíma var með þeim hætti að sú sem hér stendur ásamt með hv. þm. Birgi Ármannssyni kom á fundi með embætti ríkislögreglustjóra og við fórum yfir ákveðna þætti í skýrslunni áður en hún var gefin út.

Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni og skal ítreka hana hér eins og ég gerði í fyrrasumar að ég tel að við síðustu fjárlagagerð hafi verið gengið of langt í niðurskurði til lögreglunnar. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég lýsti hér í fyrrasumar, löggæsla og lögregla er ein af grunnstoðum samfélagsins ásamt með heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum. Þar af leiðandi hefði átt að gera sömu niðurskurðarkröfu til löggæslunnar og var gert til þessara málaflokka, þ.e. 7%. Hún var hins vegar 10% og þar var gengið allt of langt.

Ég vil segja í þessari umræðu, frú forseti, að ég mun beita mér fyrir því innan þingflokks Samfylkingarinnar að við næstu fjárlagagerð verði þetta leiðrétt og að niðurskurðurinn til lögreglunnar verði sá sami og til þeirra grunnstoða samfélagsins sem ég nefndi áðan. Ég tel að við höfum gengið of langt og að við það verði ekki búið.