138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:28]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek fram í upphafi máls míns að skoðun mín er sú að lögreglan á Íslandi sé framúrskarandi. Við búum yfir stórkostlegu lögregluliði, einvalaliði fólks sem leggur sig fram í hvívetna við að sinna störfum sínum vel og örugglega. Um það eru held ég allir sammála hér inni. Það er mjög auðvelt fyrir þingmenn í þessari umræðu að falla í þá freistni að tala sérstaklega inn í kjarabaráttu lögreglumanna um þessar mundir, en um það fjallar ekki þessi fundur hér, enda vita það allir sem hafa eitthvað komið að ríkisfjármálum undanfarið ár að það er ekki svigrúm til launahækkana eins og staðan er núna. Þannig er einfaldlega staðan og það vita allir.

Aðalatriðið í þessari umræðu að mínu mati er góð nýting fjármuna og viðunandi þjónustustig. Það er það sem við erum að ræða hér. Ég hef ekki farið dult með skoðun mína að ég tel of miklum fjármunum varið í yfirbyggingu lögreglunnar. Eins og allir hér inni vil ég að lögreglan á Íslandi sé í fremstu röð þegar kemur að því meginverkefni að gæta öryggis borgaranna. Lögreglan á Íslandi á að mínu mati að hafa það orðspor á alþjóðavettvangi sem lögreglan í Húnavatnssýslu hefur á Íslandi, sanngjörn en hörð í horn að taka. Hvernig gerum við þetta? Hér á það að vera vitað að tekið sé af hörku á glæpum og glæpamönnum. Við þurfum að tryggja lögreglu heimildir til að sinna störfum sínum, t.d. forvirkar rannsóknarheimildir. Séu slíkar heimildir settar með skýrum reglum og háðar opinberu eftirliti eru þeir sem til þekkja sannfærðir um árangur slíkra aðgerða í þágu almennings. Það er ég líka.

Ég held að aðalatriðið í þessari umræðu sé að við eigum ekki að vera hrædd við að endurskoða stofnanastrúktúrinn, spara peninga og setja peningana (Forseti hringir.) í löggæsluna, ekki í skrifstofuhald.